mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bandarísk stjórnvöld ekki sjálfum sér samkvæm

12. september 2011 kl. 15:42

Langreyður.

Fulltrúar Íslands funduðu með stjórnvöldum í Washington um hvalveiðimál.

Bandarísk stjórnvöld eru ekki sjálfum sér samkvæm þegar þau gagnrýndu annars vegar veiðar Íslendinga á langreyði en leituðu hins vegar eftir stuðningi Íslands og annarra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins við veiðar Bandaríkjamanna á norðhval frá Alaska. Á þetta bentu fulltrúar Íslands á fundi með stjórnvöldum í Washington síðastliðinn föstudag.

 ,,Fyrir liggur að langreyðarveiðar Íslendinga eru sjálfbærar engu síður en norðhvalsveiðar Bandaríkjamanna. Þess ber að geta að ákvörðun verður tekin um kvóta Bandaríkjanna á norðhval til fimm ára á ársfundi ráðsins í Panama á næsta ári og þurfa Bandaríkin stuðning 3/4 hluta aðildarríkjanna til að kvótinn verði samþykktur,” segir í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.

 Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, og Hjálmar W. Hannesson, sendiherra Íslands í Washington, áttu á föstudag fundi í Washington með bandaríska utanríkisráðuneytinu og starfsmönnum beggja öldungadeildarþingmanna Alaska, Lisu Murkowski og Mark Begich. Markmiðið með fundunum var að bregðast við útnefningu viðskiptaráðherra Bandaríkjanna á Íslandi samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði vegna hvalveiða í júlí sl. og upplýsa bandarísk stjórnvöld og þingmenn um stefnu Íslands í hvalveiðimálum. Innan skamms mun Bandaríkjaforseti taka afstöðu til útnefningarbréfs viðskiptaráðherrans, en þar var lagt til að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi.

 Á fundunum var lögð á það áhersla af Íslands hálfu að hvalveiðar Íslendinga væru fyllilega löglegar og alþjóðleg viðskipti þeirra með hvalaafurðir í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Jafnframt var undirstrikað að veiðar á hrefnu og langreyði væru sjálfbærar og byggðar á traustum vísindalegum grundvelli. Í ljósi alls þessa var lýst undrun á útnefningu Íslands samkvæmt Pelly-ákvæðinu, enda væri hvorki lagalegur né vísindalegur grundvöllur fyrir henni og þeim aðgerðum sem lagðar hefðu verið til gegn Íslandi.