laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bann við brottkasti gæti skaðað lífríkið

16. maí 2014 kl. 12:24

Brottkast

Skoskir vísindamenn efast um að bann ESB við brottkasti hafi tilætluð áhrif en takmarki fæðuframboð fyrir sjófugla

Bann við brottkasti á fiski gæti verið slæmt fyrir lífríkið að sögn skoskra vísindamanna. Frá þessu er greint á vef BBC.

Vísindamenn í Glasgow segja í nýrri skýrslu að fyrirhugað bann við brottkasti á fiski í ríkjum ESB gæti svipt sjófugla og önnur sjávardýr mikilvægri fæðu.

Frá og með næsta ári verða fiskiskip í ríkjum ESB skylduð að koma með allan afla að landi, þar með talinn óvelkominn meðafla, svo sem tegundir sem ekki var ætlunin að nýta eða tegundir sem skip hafa ekki kvóta fyrir.

Vísindamennirnir, sem eru á vegum Strathclyde háskóla, leggja þess í stað til að veiðiaðferðum verði breytt til að draga úr óvelkomnum afla. Þeir benda einnig á að brottkast hafi aukist stórlega í kjölfar ósveigjanlegra kvóta ESB. Fram kemur í frétt BBC að árið 2009 hafi skosk skip „neyðst“ til vegna fiskveiðistefnu ESB að henda allt að 28 þúsund tonnum af fiski í sjóinn að verðmæti 33 milljóna punda (um 6,2 milljarðar ISK). Um er að ræða fjórðung alls hvítfisksaflans.

Vísindamennirnir segja að það eitt að koma með allan fisk í land stuðli ekki endilega að verndun fiskistofna en skerði afkomumöguleika sjófugla, sjávarspendýra og annarra fiska. Þeir segja að fjöldi lífvera þrífist á því sem við mennirnir látum frá okkur. Þeir benda einnig á að brottkast hafi verið við lýði allt frá 19. öld að minnsta kosti. Bann við brottkasti gæti því haft ófyrirsjáanleg og óæskileg áhrif.

Fulltrúi skoskra stjórnvalda tekur undir áhyggjur vísindamanna af banni við brottkasti. Hann segir að skoskir fiskimenn hafi nú þegar brugðist við kröfunni um markvissari veiðar. Fiskimenn landi nú meiri fiski og hendi minna í sjóinn. Brottkast á þorski, ýsu og lýsu hafi minnkað úr 47% af veiðinni 2007 í 18% árið 2012.