föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bann við karfaveiðum féll á afstöðu Rússa

17. nóvember 2017 kl. 14:35

Úthafskarfaskip á Reykjanesneshrygg (Mynd/LHG)

Rússar viðurkenna ekki mat ICES á stöðu karfastofna á Reykjaneshrygg.

Ekki náðist samkomulag um að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg þrátt fyrir að ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þar um.

Þetta liggur fyrir eftir ársfund Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) sem lauk í dag, og segir frá í tilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Ráðið fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna einstakra ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Aðild að því eiga Danmörk (f.h. Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland. Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum.

Rússar neita
Fyrrnefnd niðurstaða kemur til vegna andstöðu Rússa sem ekki viðurkenna mat ICES á stöðu þessara karfastofna. Samþykkt var tillaga ESB og Danmerkur fyrir hönd Færeyja og Grænlands um takmarkaðar veiðar, þ.e. 6.500 tonn sem er 1.000 tonnum minna en í ár. Sem fyrr  mun Rússland setja sér einhliða kvóta langt umfram þessa viðmiðun. Þessi niðurstaða er sem fyrr mikil vonbrigði fyrir Ísland, segir í tilkynningunni.

Ekki liggur fyrir samkomulag strandríkja varðandi veiðar úr deilistofnunum, síld, kolmunna og makríl og því var ekkert samþykkt á fundinum annað en að ríkin skyldu setja sér takmarkanir og öðrum en aðildarríkjum væri óheimilar veiðar á stjórnunarsvæði NEAFC.

Samþykkt var að framlengja svæðalokanir vegna viðkvæmra vistkerfa s.s. kóralla auk þessa sem eitt af lokuðu svæðunum var stækkað á grunni ráðgjafar ICES.

Fundurinn samþykkti tillögu Íslands og Noregs um aukna varúð við stjórn veiða á djúpsjávartegundum utan lögsagna ríkja.

Þá samþykkti fundurinn að setja á fót vinnuhóp sem fjalla skal um samspil fiskveiðistjórnunar á úthafinu við vernd viðkvæmra vistkerfa á landgrunni sem tilheyra strandríki.