fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bannið kemur þyngst niður á Íslandi

7. ágúst 2015 kl. 15:10

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri SFS

Eigum ekki að elta ESB í blindni í viðskiptaþvingunum, segir Kolbeinn Árnason.

„Þær hindranir sem við horfum upp á hérna koma mjög illa við íslenskt efnahagslíf. Mér er það til efs að það sé svo í nokkru landi að grein eins og sjávarútvegurinn og stór hluti nokkurrar greinar sem er svona mikilvæg verði svona illa fyrir barðinu á þessum tilteknu viðskiptaþvingunum.“

Þetta sagði Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í hádegisfréttum RÚV í dag um áhrif hugsanlegs innflutningsbanns Rússa á sjávarafurðir frá Íslandi.

Kolbeinn, eins og fleiri talsmenn sjávarútvegsins, gagnrýnir það hvernig stjórnvöld hafa haldið á þessu máli en segir að í gagnrýninni felist ekki að breyta eigi utanríkisstefnu Íslands. Það skjóti hins vegar skökku við að teknar séu upp óbreyttar viðskiptahindranir sem Evrópusambandið hefur hannað á grundvelli sinna hagsmuna.  Kolbeinn kallar eftir efnislegri umræðu um hvernig eigi að viðhalda þessum grundvallarreglum, og að Ísland móti þar sína eigin stefnu. „Að við eltum ekki bara í blindni Evrópusambandið sem við erum ekki aðilar að og höfum engin tækifæri til að hafa áhrif á þegar kemur að mótun slíkra hluta.“

Hann Kolbeinn segir sjávarútveginn ekki vera að biðja um frekari styrki, eins og utanríkisráðherra nefndi sem möguleika í gær. Hann vill að Íslendingar móti eigin stefnu um hvernig taka skal á mannréttindabrotum.