miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Baráttan gegn ólöglegum fiskveiðum

9. júlí 2019 kl. 07:00

Þorvarður K. Sigurjónsson

Um 20% af öllum fiski og fiskafurðum koma frá ólöglegum veiðum

Ólöglegar fiskveiðar og skaðleg áhrif þeirra eru varla ný af nálinni. Áratuga ofveiði hefur leitt til yfirvofandi hættuástands á fiskistofnum um allan heim þar sem þeir eru ofveiddir og nýting þeirra ósjálfbær.

Umfangsmikil lögbrot

Ólöglegar fiskveiðar er þegar skip stunda ótilkynntar veiðar eða ranglega tilkynntar veiðar sem viðeigandi innlend yfirvöld eða stofnanir fá ekki veður af og brýtur gegn gildandi lögum og reglum. Oft eru þetta fiskveiðar stundaðar af þjóðernislausum skipum eða skipum sem sigla undir fána ríkis sem ekki er heimilt að stunda almennar veiðar innan lögsögu strandríkis eða úthafsveiðar undir stjórn svæðisbundinnar fiskveiðistjórnunarstofnunar. Þessi lögbrot ná yfir flesta hlekki virðiskeðjunnar bæði á sjó og í landi. Þessi lögbrot eru umfangsmikil og eru stunduð  þvert á landamæri.  Samkvæmt tölum frá árinu 2018 er áætlað að um um 20% af öllum fiski og fiskafurðum á heimsmarkaðnum eigi sér uppruna úr ólöglegum veiðum. Áætluð verðmæti þessara fiskafurða er um 23,5 milljarðar Bandaríkjadala, en það svarar til 2.864 milljarða íslenskra króna.

Ólöglegar fiskveiðar valda miklum efnahagslegum og félagslegum skaða. Þessar veiðar hafa einkum verið mikið vandamál hjá þjóðríkjum með víðfeðma lögsögu þar sem þessar veiðar skaða hagkerfið, skekkja markaðina og kippa grundvellinum undan uppbyggingu fiskistofna og valda því að auðlindin skilar sér ekki til viðkomandi þjóðar. Þá er þetta sérstaklega alvarlegt vandamál fyrir smærri eyríki á suðurhveli jarðar þar sem þessi smáu eyjasamfélög byggja afkomu sína á fiskveiðum og því mikilvægt að spornað sé gegn rányrkju og annarri ólöglegri starfsemi í sjávarútveginum. Útflutningur á fiski og fiskafurðum hefur allt að segja fyrir efnahaginn og matvælaöryggi hjá þessum samfélögum.

Vöktun í rauntíma víða um heim

Hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn þessu vandamáli hafa leitt hinar ýmsu sjávarútvegsþjóðir og svæðisbundnar fiskveiðistofnanir til að leita til í auknu mæli til þjónustu Trackwell. Fiskveiðieftirlitskerfi okkar (Trackwell VMS) hjálpar viðskiptavinum okkar víðsvegar um heim að sinna eftirliti með efnahagslögsögu sinni og sporna við ólöglegum fiskveiðum með góðum árangri. Trackwell kerfið býður upp á víðtæka vöktun skipa, og ýmsa eftirlits valkosti og gerir notendum kleift að sinna eftirliti með sinni efnahagslögsögu, fylgjast náið með veiðum á hættusvæðum og greina grunnsamlega hegðun skipa.

Vakta 7.000 skip

Ástralía er eitt þeirra ríkja sem nota Trackwell VMS til fylgst með atferli þeirra sjö þúsunda skipa sigla umhverfis heimsálfuna en efnahagslögsaga Ástralíu er sú þriðja stærsta í heimi og spannar 8.2 milljón ferkílómetra. Trackwell þjónustar einnig svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir líkt og Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina (NEAFC), og Fiskveiðinefnd Vestur- og Mið Kyrrahafs (WCPFC)  sem leika mikilvægt hlutverk í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum á úthafinu.  Þá ber einnig að nefna Fiskveiðiráð Kyrrahafseyjanna (FFA) en Trackwell VMS er notað til að stýra fiskveiðieftirliti fjögur þúsund skipa í Kyrrahafinu fyrir þau tuttugu og sex ríki sem eiga aðild að FFA og WCPFC.

Viðskipti með ólöglega veiddan fisk og fiskafurðir eru alþjóðleg og lögbrotin eiga sér fá landamæri og alþjóðsamfélagið kallar sífellt eftir auknum aðgerðum. Trackwell hefur svarað kallinu og í kjölfarið tryggt sér stöðu sem leiðandi þjónustu- og söluaðila fiskveiðieftirlitskerfa á heimsvísu.

Höfundur er vörustjóri Trackwell VMS