sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bárður kominn með yfir 1.000 tonn

8. ágúst 2008 kl. 13:48

Netabáturinn Bárður SH frá Arnarstapa hefur náð þeim merka árangri á þessu kvótaári að hafa komið með yfir 1.000 tonn að landi, að því er fram kemur á vef Skessuhorns. Báturinn er aðeins um 20 tonn að stærð og aðeins þrír menn í áhöfn.

Í tilefni af þessum áfanga færði Fiskmarkaður Íslands áhöfninni vel skreytta rjómatertu með mynd af bátnum. Voru tertunni gerð góð skil en áhöfnin neitaði þó að skera í myndina af bátnum. Pétur Pétursson skipstjóri og útgerðarmaður Bárðar SH segir í samtali við Skessuhorn að í haust hafi aflinn verið frekar tregur en eftir áramót hafi verið mokafli. “Við höfum verið hér á Arnarstapa og svo róið frá Ólafsvík. Það er sama hvar trossurnar eru lagðar, það er alls staðar fiskur þvert á spár fiskifræðinga.“

Pétur segir einnig að hann skipti ekki oft um net. “Ég var með eina trossu í 40 daga og hún var orðin gegnum slitin. Þegar við tókum hana í land voru 800 kíló í henni. Alls fiskuðust um 35 tonn í þessa trossu sem þykir gott,“ segir Pétur.