fimmtudagur, 5. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Batamerki í sölu í Bretlandi og Evrópu

Gudjon Gudmundsson
26. júlí 2020 kl. 08:00

Kristján Hjaltason, sölustjóri Norebo. Aðsend mynd

Óvissuástand næstu 6 til 12 mánuði

Fish&chips markaðurinn í Bretlandi hefur verið sterkur síðustu einn til tvo mánuði með sína „taka-heim“ þjónustu og veitingahúsamarkaðurinn á meginlandi Evrópu er farinn að taka við sér, að sögn Kristjáns Hjaltasonar, sölustjóra hjá rússneska sjávarútvegsfyrirtækinu Norebo.

Rætt var við Kristján í Fiskifréttum í byrjun apríl þegar heimsfaraldurinn var í hæstu hæðum og mikil óvissa ríkti á öllum mörkuðum. Hann sagði þá að ein þeirra lausna sem kæmi til greina væri að auka framleiðslu á frystum og söltuðum afurðum og önnur beinlínis að draga úr veiðum og leggja skipum.

Jafnmikil sala og í fyrra

„Það kom ekki til þess hjá Norebo að leggja þyrfti skipum. Veiðin í apríl og maí var ekkert sérstök sem hjálpaði en svo má einnig segja að markaðirnir hafi tekið ágætlega við sér. Frá maí höfum séð góðan stíganda í sölu. Fish&chips markaðurinn í Bretlandi hefur verið býsna sterkur síðustu einn til tvo mánuði með sína „gripið og greitt“ þjónustu. Salan á þessum markaði í maí og júní hefur verið með ágætum. Í heildina var sala á þorsk og ýsu hjá Norebo í júní jafnmikil og hún var á sama tíma í fyrra,“ segir Kristján.

Sala til veitingastaða í Bretlandi hefur farið mjög hægt af stað og telur Kristján að lengri tími þurfi að líða áður en veruleg batamerki verði þar. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings við veitingahús muni hafa.

Á meginlandi Evrópu hefur smásalan og heimsendingarþjónusta allan þennan tíma verið sterk og er það áfram. Síðustu vikur hefur veitingahúsamarkaðurinn þar einnig verið að taka vel við sér, sérstaklega í Þýskalandi, Frakklandi og Póllandi. Þetta megi rekja til aukins ferðafrelsis innanlands í þessum löndum og á milli landa í Evrópu. Þyngri sala hefur hins vegar verið á fiski í ferskfiskborðum verslana. Í Bretlandi fari þessi sala mjög hægt af stað. Almennt fari fólk sjaldnar í verslanir og því fylgir minni innkaup á ferskri vöru.

Verð haldist fremur stöðugt

Markaður sem skiptir fiskframleiðendur máli og hefur vaxið mikið eru skemmtiferðaskipin. Sá markaðurinn gufaði upp á einu augabragði. Austurströnd Bandaríkjanna fer ágætlega af stað og þar er jöfn og þétt sala meðan ástandið á vesturströndinni er verra.

„Almennt má segja um þetta að við erum ekki kominn út úr covid-19 faraldrinum. Hættan er sú að það komi bakslag eins og hefur gerst til dæmis í Austurríki, á Spáni og Hong Kong. Ég reikna með að svona verði staðan jafnvel næstu 6 til 12 mánuði. Meðan ekkert bóluefni er til er þetta eitthvað sem öll lönd þurfa að kljást við. Þetta mun hægja á því ferli að veitingahúsa- og stofnanamarkaðurinn fari á fullu af stað.“

Ástandið hefur þó ekki leitt til birgðasöfnunar hjá Norebo sem er langstærsti einstaki aðilinn í sölu á sjófrystum sjávarafurðum í Evrópu með um fjórðung af markaði fyrir sjófrystar þorsk- og ýsuafurðir úr Norður-Atlantshafi. Norebo nýtur þeirra stöðu að dreifa sinni sölu inn á alla markaði og vera með fjölbreytta afurðasamsetningu. Kristján kveðst ekki heldur hafa orðið var við sérstaka birgðasöfnun hjá öðrum framleiðendum, alla vega ekki í sjófrystum afurðum.

Hvað afurðaverðin varðar segir Kristján verð á roðlausum og beinlausum fiski hafa tekið mjög litlum breytingum í faraldrinum en líklega hafi orðið 5-10% lækkun á afurðum með beini og roði.