miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bein útsending úr trollinu

Guðsteinn Bjarnason
23. febrúar 2020 kl. 07:00

Jón Atli Magnússon hefur unnið að þróun nýja kapalsins síðan 2016. MYND/Hampiðjan

Hampiðjan boðar miklar breytingar á veiðum hér við land síðar á árinu. Með ljósleiðarakapli verði hægt að sjá jafnóðum á tölvuskjá hvaða tegundir eru að koma í veiðarfærin.

„Þetta verður líklega ein mesta breyting á fiskveiðum í áratugi,“ segir Jón Atli Magnússon, þróunarstjóri hjá Hampiðjunni. Hann hefur séð um þróun á gagnakapli sem vonast er til að komi á markað síðar á árinu.

Gagnakapallinn getur flutt myndir frá veiðarfærum í sjó upp í brú fiskiskipa, þar sem áhöfnin getur í beinni útsendingu fylgst með því sem kemur í trollið.

Jón Atli segir hönnun kapalsins lokið. Hann var prófaður um borð í Beiti NK síðastliðið haust og reyndist vel, en brotnaði þó og kallaði það á nýjar lausnir við röðun hans.

„Hann raðaðist mjög illa og þá myndast punktþrýstingar sem eyðileggja hann,“ segir Jón Atli. „Við vorum búnir slaka honum í sjóinn og hífa hann aftur um borð undir einu og hálfu tonni, sem er alveg í hámarki, meira en vanalega er notað, og hann þoldi það vel. En svo þegar við létum hann fara aftur og tókum hann aftur um borð þá brotnaði hann. Þannig að röðunin skiptir verulega miklu máli.“

Ræður við þúsundir mynda

Nú er beðið eftir rafknúnu vírastýri á aðra vindu skipsins sem að bæta úr þessum vanda. Naust Marine er að framleiða þennan búnað og Jón Atli segist vonast til þess að hann verði klár innan fárra vikna.

„Við erum bara að bíða eftir því að þessi búnaður verði tilbúinn og þá förum með hann um borð í Beiti til að prófa. Ég býst við því að við náum að græja spilið á þessum ársfjórðungi og notum þá annan ársfjórðung í að prófa. Eftir það verður hægt að byrja að selja búnaðinn á markaði. Þá verður líka tilbúin vara fyrir þennan kapal, það verða komin tæki til að tengja hann við.“

Jón Atli segir mikið til nú þegar af búnaði sem hægt sé að tengja við kapalinn.

„Það er til fullt af alls konar myndavélum sem þola þennan þrýsting, þannig að það er ekkert mál. Það væri hægt að streyma 4.000 GoPro-myndavélum í 4k á sama tíma. Þannig að sú takmörkun er bara farin. Gagnahraðinn er svo mikill að það er bara spurning hvað menn vilja gera,“ segir hann.

„Svo þegar lifandi myndir eru komnar í lit og góðum gæðum þá verður hægt að greina þær í tölvu. Það verður hægt að telja hvaða fiskur kemur, hvaða tegundir og hvað þeir eru stórir, þannig að þú getur séð á skjá uppi í brú jafnóðum nákvæmlega hvað er að koma í trollið hjá þér.“

Langt og strembið ferli

Hampiðjan hóf vinnu við hönnun ljósleiðarakapals árið 2016. Jón Atli hefur frá upphafi stýrt þeirri vinnu en upphaflega kviknaði þessi hugmynd hjá Hirti Erlendssyni forstjóra fyrir um tuttugu árum.

„Við erum búin að nota marga tugi kílómetra í ljósleiðurum í prófanir til að finna út hvernig þetta á að virka svo ljósleiðarinn þoli þá krafta sem eru um borð í þessum skipum. Þetta eru viðkvæmir glerþræðir, bara örþunnt gler. Ljósleiðarinn sem við fundum á endanum og þolir þetta, hann er mjög sérstakur. Þetta er ekkert sams konar ljósleiðari og við þekkjum, heldur er þetta meira notað í flugskeytum, gervitunglum og þannig búnaði. Venjulegir ljósleiðarar þola það ekki.“

Jón Atli segir kapalinn varinn með fjölda einkaleyfa og einkaleyfaumsókna. Hann segir þetta verkefni heldur aldrei hafa getað orðið að veruleika án aðkomu frá Tækniþróunarsjóði.

„Við höfum þurft að þróa allar vélar sjálfir og allan mælibúnað til að fylgjast með í framleiðslunni. Þetta er búið að vera langt og strembið ferli og það eru tugir milljóna sem þetta er búið að kosta.“