sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Beinaskurðarvélin stóðst prófið með glans

23. apríl 2012 kl. 09:54

Vélin sker beinagarðinn í flökunum úr með vatnsskurði.

Vélin stuðlar að auknum afköstum og aukinni nýtingu

Niðurstöður í formlegum prófunum á afköstum og nýtingu nýrrar beinaskurðarvélar Völku ehf. gefa vísbendingu um möguleika á stóraukinni nýtingu og afköstum við snyrtingu  hvítfiskflaka. Vélin notar röntgen- og þrívíddarmyndavélar til að staðsetja bein í flökum og sker beinagarðinn úr með vatnsskurði.

Þróunarverkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði og unnið í samvinnu við HB Granda, Samherja og Nýfisk. Smíði á frumgerðinni var í náinni samvinnu við HB Granda og hún var á dögunum sett í formlegar afkasta- og nýtingarprófanir í eftirliti rannsóknarþjónustunnar Sýni ehf.

Í frétt frá Völku segir að prófanirnar hafi gengið afar vel. Tvær flakastærðir voru keyrðar í gegnum vélina, alls rúmlega 500 flök. Niðurstöður voru í stuttu máli þær að nýting er um tvöfalt betri en í handskurði og ríflega 94% flakanna voru beinlaus og fjöldi beina var aðeins um 0,6 stk/kg sem er vel innan við það sem almennar pökkunarkröfur tilgreina. Með því að hafa röntgen vél einnig fyrir aftan línuna er unnt að tryggja að öll flök frá línunni verði beinlaus.

Sem fyrr segir benda prófunarniðurstöðurnar til þess að nýtingartap í afskurði verði um helmingi minna en með handskurði auk þess sem starfsmenn við línuna verða 3-4 í stað 10-12 sem þyrfti til að ná svipuðum afköstum í handskurði.
Miðað er við að fyrsta vélin verði komin í notkun í vinnslu HB Granda í Norðurgarði nú í júní og verði notuð við beinaskurð á karfaflökum. Valka stefnir jafnframt á að unnt verði að nota vélina til að skera beinagarð úr öðrum hvítfisktegundum, svo sem ufsa, ýsu og þorski.