sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Beinum kolmunnaveiðum HB Granda lokið

6. maí 2013 kl. 16:04

Ingunn AK (Mynd af vef HB Granda)

Afgangur kvótans notaður til að mæta meðafla á öðrum veiðum í sumar.

Ingunn AK kom til Vopnafjarðar í morgun með um 2.000 tonn af kolmunna sem fengust á veiðisvæðinu sunnan Færeyja um helgina. Að sögn Róberts Axelssonar, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, gengu veiðarnar vel og aldrei þessu vant var veðrið með skásta móti.

Með þessum farmi er heildarkolmunnaveiði skipa HB Granda á vertíðinni, sem stóð í einn mánuð, orðin rúmlega 21.000 tonn og eftirstöðvar úthlutaðs árskvóta, um 1.100 tonn, verða nýttar í sumar þegar veiðar á norsk-íslenskri síld og makríl hefjast. Það verður að öllu óbreyttu ekki fyrr en í byrjun júlímánaðar.

,,Þetta leit ekkert of vel út þegar við fórum frá Vopnafirði en veðurspáin breyttist og fyrir utan kaldaskít fyrsta hálfa daginn eða svo þá var veðrið bara fínt. Við fengum þennan afla í fimm holum á rúmum tveimur sólarhringum. Kolmunninn er farinn að fitna og það var töluvert líf á veiðisvæðinu. Ástand stofnsins virðist a.m.k. vera ágætt miðað við það sem við höfum séð síðustu vikurnar,“ segir Róbert Axelsson.

Þetta kemur fram á vef HB Granda.