laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bergey - nú Runólfur SH - kveður Vestmannaeyjar

1. október 2019 kl. 13:21

Runólfur SH lætur úr höfn í Vestmannaeyjum í gær. Mynd/Arnar Richardsson

Frá því að Bergey kom hefur skipið farið í 777 veiðiferðir og veitt rúm 43 þúsund tonn. Það gerir 55,5 tonn að meðaltali í veiðiferð.

Runólfur SH, áður Bergey VE, lét úr höfn í Vestmannaeyjum í gær og hélt áleiðis til nýrrar heimahafnar á Grundarfirði. það er Guðmundur Runólfsson hf. sem hefur fest kaup á skipinu.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar og þar sagt að í „Eyjum ljúka menn upp einum munni um það að þarna hafi gæðaskip kvatt Eyjarnar.“

Frá því segir jafnframt að forsvarsmenn Bergs-Hugins hafa víst ávallt haft mikið dálæti á tölunni fjórum og „kemur það dálæti skýrt fram í einkennisstöfum skipa fyrirtækisins, símanúmerum og í reyndinni alls staðar þar sem mögulegt er að koma tölunni að. Runólfur leysti landfestar í Vestmannaeyjum í gær klukkan 16.44 en þá voru liðin 12 ár og 44 dagar frá því að skipið kom nýtt frá Póllandi til Eyja.“

Frá því að Bergey kom hefur skipið farið í 777 veiðiferðir og veitt rúm 43 þúsund tonn. Það gerir 55,5 tonn að meðaltali í veiðiferð. Aflaverðmæti hverrar veiðiferðar hefur að meðaltali verið 14,5 milljónir króna.