þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Berta kveður Sjávarklasann

10. júní 2021 kl. 12:01

Berta Daníelsdóttir.

Berta tekur við starfi framkvæmdastjóra sölusviðs alþjóðlega framleiðslufyrirtækisins Hotraco þann 1. september næstkomandi.

Berta Daníelsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans í haust en hún tekur þá við starfi framkvæmdastjóra sölusviðs alþjóðlega framleiðslufyrirtækisins Hotraco þann 1. september næstkomandi. 

Berta hefur starfað sem framkvæmdastjóri Sjávarklasans síðastliðin fimm ár.

Nú eru starfandi sex systurklasar Sjávarklasans utan Íslands og ráðgjafarverkefni klasans utan Íslands hafa aukist að sama skapi, og hefur árangurinn á starfstíma Bertu vakið athygli en hún mun taka sæti í stjórn Íslenska sjávarklasans.

„Forysta Bertu við uppbyggingu Íslenska sjávarklasans hefur verið ómetanleg. Við erum stolt af því að hún skuli valin úr stórum hópi til að leiða alþjóðlega starfsemi sem tengist matvælamarkaði.  Íslenski sjávarklasinn þakkar Bertu fyrir einstaklega farsælt samstarf,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans, í frétt Klasans.

Hotraco, fyrirtækið sem Berta gengur til liðs við, hannar og framleiðir framleiðslubúnað og rekjanleikakerfi fyrir matvæli. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hollandi þar sem Berta mun starfa. Á sama tíma lætur hún af störfum sem framkvæmdastjóri Sjávarklasans.