laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Besta jólagjöfin“

24. desember 2013 kl. 10:36

Hinn nýi Polar Amaroq siglir inn Norðfjörð í gærmorgun. Ljósm. Guðlaugur Birgisson

Nýi Polar Amaroq er glæsilegt hörkuskip, segir Geir Zoega skipstjóri.

Hinn nýi Polar Amaroq sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð í gærmorgun. Skipstjórar á skipinu eru Geir Zoega og Halldór Jónasson. „Þetta er glæsilegt hörkuskip“, segir Geir Zoega í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Við fengum skítabrælu alla leiðina frá Skagen í Danmörku og það reyndi svo sannarlega á skipið. Áhöfnin er alsæl og gat ekki hugsað sér betri jólagjöf en þetta frábæra skip. Allur búnaður um borð er fyrsta flokks og það verður svo sannarlega spennandi að hefja veiðar eftir áramótin. Það verður unun að vinna á þessu skipi“.

Polar Amaroq er í eigu grænlenska fyrirtækisins Polar Pelagic sem Síldarvinnslan á þriðjung í en það leysir af hólmi eldra skip með sama nafni. Nýja skipið hét áður Gardar og var í eigu norska útgerðarfélagsins K. Halstensen AS. Það var byggt árið 2004 og lengt árið 2006.

Hið nýja skip er vinnsluskip, 3.200 brúttótonn að stærð, 83,8 m. á lengd og 14,6 m. á breidd. Í skipinu er Wartsila aðalvél, 7507 ha. og er það búið tveimur hliðarskrúfum. Skipið er búið öllum siglingatækjum og getur lestað 2535 tonn, þar af 2000 í kælitanka. Frystigeta um borð er 140 tonn á sólarhring og er þá miðað við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1000 tonn.

Skipstjórar á nýja skipinu verða Geir Zoega og Halldór Jónasson.