sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Besti afli í netaralli til þessa

26. apríl 2012 kl. 10:51

Netarall á Þorleifi EA frá Grímsey. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

Eina undantekningin var veiðin í kantinum austur af Eyjum.

Netaralli Hafrannsóknastofnunar lauk síðastliðinn sunnudag, 22. apríl. Um 300 netatrossur voru lagðar og er þeim dreift á helstu hrygningarsvæði þorsks. Í frétt á vef Hafró segir að úrvinnsla gagna sé á frumstigi og niðurstöður liggi ekki fyrir, en mjög góð veiði hafi verið  á flestum svæðum og hafi þorskaflinn verið um 1000 tonn.

Metafli fékkst í Breiðafirði og einnig var talsverð aflaaukning á svæðinu frá Meðallandsbug að Hvítingum. Á öðrum svæðum var afli svipaður eða aðeins betri en í fyrra. Eina undantekningin hvað varðar þorskafla var kanturinn austur af Eyjum en þetta er fjórða árið í röð sem afli hefur verið lélegur þar. Netabátar hafa ekki sótt mikið þorsk í kantinn síðustu ár. Hins vegar hefur verið mjög góð veiði uppi á grunninu.

Netarallið er því eina vísbendingin um þróunina þar og líklegt er að þorskurinn gangi nú fyrr og meira upp á kantinn en áður.

Gagnasöfnun í netaralli skilar mikilvægum upplýsingum um hrygningu þorsks og þróun samsetningu hrygningarstofnsins. Niðurstöður netaralls hafa hins vegar ekki verið notaðar beint til samstillingar í stofnmati, en eru hafðar tilhliðsjónar við fiskveiðiráðgjöf. Netarallið hefur eins og stofnmatið sýnt vöxt í hrygningarstofninum á undanförnum árum.

Sjá nánar á vef Hafró.