mánudagur, 13. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Besti grálúðutíminn að fjara út

2. júní 2020 kl. 15:00

Örfirisey RE. Mynd/Brim

Þokkalegasta kropp hjá Örfirisey RE.

„Besti grálúðuveiðitíminn er að fjara út en þetta hefur verið þokkalegasta kropp hjá okkur á Hampiðjutorginu. Aflinn er að vanda bestur þegar hitaskil ganga yfir slóðina en þess utan höfum við fengið alveg ágætan afla með því að toga norður eða suður slóðina.”

Þetta segir Kristján Víðir Kristjánsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE, í viðtali við heimasíðu Brims. Var hann þá einmitt að toga eftir hitaskilum sem gengið höfðu suður slóðina.

„Apríl og maí eru jafnan þeir mánuðir sem hafa verið besti grálúðuveiðitíminn og venjulega dettur veiðin ekki niður fyrr en eftir sjómannadaginn,” segir Kristján Víðir en að hans sögn hófst veiðin í yfirstandandi veiðiferð á Halamiðum.

„Við fengum dálítið af ufsa á Halanum en þar var enginn karfi. Þorskurinn hefur flætt yfir Víkurálinn og þar er heldur engan karfa að finna. Við höfum skotist í Nætursöluna, sem er hér austan við okkur í Víkurálnum, og þar fæst dálítið af ufsa með þorskinum sem er alls ráðandi. Jafnvel hér á Torginu fáum við þorsk með grálúðunni en karfinn sést ekki,” segir Kristján Víðir.

Reiknað er með því að Örfirisey verði á grálúðuslóðinni á Hampiðjutorginu áfram en komi til hafnar í Reykjavík fyrir hádegi á laugardag í hefðbundið frí vegna sjómannadagsins.