þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Betra að vinna beitukónginn heima

Guðsteinn Bjarnason
9. janúar 2019 kl. 07:00

Beitukóngur. MYND/HAFRÓ

Rannsóknir á veiðum, vinnslu og útflutningi beitukóngs

Með réttri meðhöndlun reyndist unnt að halda beitukóngi lifandi í viku. Til að flytja hann út lifandi þyrfti þó að halda honum á lífi í að minnsta kosti tíu daga.

Jónas R. Viðarsson og Ásbjörn Jónsson hjá Matís hafa birt skýrslu um rannsóknir sínar á beitukóngi. Rannsóknirnar voru gerðar árin 2012 til 2013 á vegum Sægarps ehf. og með fjárstuðningi frá AVS-sjóðnum.

„Ástæða þess að dregist hefur að gefa út lokaskýrslu verkefnisins er sú að árið 2013 varð eigandi verkefnisins, Sægarpur ehf. gjaldþrota,“ segir í skýrslunni. „Verkefnið var því ekki fullklárað og hefur legið að mestu í dvala síðan 2013. En þar sem stærstum hluta verkefnisins hafði verið lokið áður en Sægarpur fór í þrot, þykir höfundum rétt og skylt að greina hér opinverlega frá hvað fram fór í verkefninu og hverjar helstu niðurstöður þess voru.“

Kannað var hvort veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi væri raunhæfur kostur, en á ákveðnum markaðssvæðum er töluverð eftirspurn eftir lifandi beitukóngi og stundum greitt hærra verð fyrir.

Tryggja hefði þurft að beitukóngurinn héldist á lífi í að minnsta kosti tíu daga til að raunhæft teldist að flytja hann út lifandi. Tilraunirnar með mismunandi aflameðferð, geymslu og flutning gáfu vísbendingar um að með réttri meðhöndlun og frágangi væri hægt að halda honum á lífi í um það bil viku. Þegar meira en vika var liðin frá veiði dró hratt úr lifun og kjötið var orðið óhæft til neyslu á tíunda degi.

„Mögulega væri hægt að þróa þessa ferla betur til að tryggja betri lifun, en miðað við þessar niðurstöður er geymsluþolið ekki nægjanlega langt til að þetta geti talist álitlegur kostur að sinni,“ segir í skýrslunni.

Einnig voru gerðar tilraunir með að halda beitukóngi lifandi í hringrásarkerfi í fiskikeri fyrir vinnslu í landi. Niðurstöðurnar þóttu til þess fallnar að fyrirtæki sem standa að vinnslu á beitukóngi gætu tekið þá aðferð upp.

„Markaðir fyrir lifandi beitukóng voru einnig skoðaðir, en segja má að sú könnun hafi endanlega fært heim sanninn um að útflutningur á lifandi beitukóngi væri ekki raunhæfur kostur,“ segir á vef Matís. „Það sé einfaldlega betri kostur að vinna beitukónginn hér heima.“