föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Betri sjómennska með tvöfaldri áhöfn

Guðjón Guðmundsson
9. júlí 2020 kl. 12:00

Tómas Þorvaldsson GK hét áður Sisimiut og Arnar HU 1 þegar hann var síðast gerður út af íslensku fyrirtæki. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Þorbjörn hf. gerði breytingar á róðrakerfi með góðum árangri

Eftir að Þorbjörn hf. sameinaði áhafnir þriggja skipa,  Hrafns GK, Gnúps GK og Hrafns Sveinbjarnarsonar GK, á tvö skip var tekið upp róðrakerfi þar sem tvöföld áhöfn var á hvoru skipi. Menn eru nú alltaf á 50% launum allt árið.

Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri Þorbjarnar hf., segir kerfið hafa mælst vel fyrir. Áhafnirnar séu ánægðar með meiri jöfnuð í launum og meiri frítíma. Dæmi voru um að menn færu í marga róðra í röð en þetta fyrirkomulag sé að öllu leyti manneskjulegra.

Samkvæmt kjarasamningum og lögboðnum hafnarfríum voru þessi skip oft stopp í landi allt upp í 4-5 sólarhringa eftir hvern túr. Með nýja fyrirkomulaginu þurfti ekki lengur að stoppa svo lengi því áhafnirnar eru að fara í mánaðarlangt frí eftir hvern túr.

„Síðan hefur það verið markmið hjá okkur að klára löndun á einum degi. Mjög oft kemur skip inn að morgni og er farið út að kvöldi með nýrri áhöfn. Í stærri túrum koma skipin inn að morgni og fara aftur út að kvöldi næsta dags. Innleiðing þessa fyrirkomulags var algjör bylting sem leiddi líka til mun betri nýtingar á atvinnutækjum.“

Reynst afar vel

Í fyrrasumar fjölgaði í frystitogaraflota Þorbjörns hf. þegar Sisimiut var keyptur frá Grænlandi. Hann hét  áður Arnar HU 1 og var í eigu Skagstrendings en ber nú nafnið Tómas Þorvaldsson GK. Skipið er stórt og mikið skip, 28 ára gamalt, og mikið vandað til smíðinnar. Þorbjörn hefur gert það út frá því í júlí í fyrra og það hefur reynst gríðarlega vel. Alltaf stóð til að leggja Gnúpi GK, sem er að verða 40 ára gamalt skip, en það hefur tekið þátt í tveimur rannsóknarleiðöngrum á vegum Hafrannsóknastofnunar, þ.e. haustralli síðastliðið haust og vorrallinu í mars síðastliðnum. Þorbjörn hefur fengið endurgjald í þorskkvóta fyrir framlag Gnúps til rallanna og þannig brúað kvótabilið að hluta til. Eiríkur Óli segir að öðruvísi hefði ekki verið grundvöllur fyrir áframhaldandi útgerð á Gnúpi.

„Við eigum kvóta í Barentshafinu og sóttum hann í mörg ár. Hann hefur minnkað heldur og við sáum ekki hagkvæmni í því að sækja hann. Þess vegna höfum við skipst á heimildum við Rammann undanfarin tvö ár. Sólbergið tekur þorskinn okkar í norsku lögsögunni og við fáum í staðinn frá þeim þorsk, ufsa og aðrar tegundir hérna heima,“ segir Eiríkur Óli.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá á dögunum hefur útgerð skipsins gengið afar vel að undanförnu. Tveir síðustu túrar hafa skilað met verðmætum; 338 milljónir voru verðmætin í löndun í apríl og 403 milljónir í síðasta túr.

Fréttin var fyrst birt í Fiskifréttum 25. júní.