þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Birtingur NK (áður Börkur) seldur úr landi

16. mars 2016 kl. 15:12

Börkur NK kemur heim frá Póllandi árið 1998 eftir umfangsmiklar breytingar.

Veiddi yfir eina og hálfa milljón tonna á árunum í eigu Síldarvinnslunnar.

Í gærkvöldi hélt Birtingur NK (áður Börkur NK) frá Neskaupstað áleiðis til Las Palmas á Kanaríeyjum en þangað er um átta sólarhringa sigling. Skipið hefur verið selt pólsku fyrirtæki sem ber heitið Atlantex og mun skipið fá nafnið Janus þegar það verður formlega afhent hinum nýja eiganda í Las Palmas.

Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar nemur 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Vissulega var aflinn misjafn á milli ára, minnstur var hann í loðnuveiðibanninu 1982-1983, en mestur á árunum 2002 og 2003. Á árinu 2002 var afli skipsins 82.317 tonn og á árinu 2003 var hann 83.825 tonn.

Í gærkvöldi heyrðu Norðfirðingar Caterpillar-hljóðið í Birtingi í síðasta sinn og víst er að margir eiga eftir að sakna þess. Hressilega var blásið í skipsflautuna í kveðjuskyni þegar látið var úr höfninni og flautan á Blængi tók undir, en hann var eina Síldarvinnsluskipið í höfn þá stundina. Á siglingunni til Las Palmas eru sjö í áhöfn Birtings, þar af þrír sem þekkja vel til þar um borð; Tómas Kárason skipstjóri, Þorsteinn Björgvinsson yfirvélstjóri og Hjörvar Sigurjónsson Moritz matsveinn. 

Sjá nánar um sögu skipsins og myndband af  brottför á vef Síldarvinnslunnar.