þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Birtingur skotinn í kaf við Suður-Afríku

18. febrúar 2016 kl. 11:42

Harvest Bettina (áður Birtingur NK) í höfn í Saldanha Bay skömmu áður en skipinu var lagt. Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)

Óvenjulegur endir á sögu þessa farsæla togara Síldarvinnslunnar.

Á vef Síldarvinnslunnar eru rifjuð upp óvenjuleg endalok togarans Birtings NK, sem seldur var til Suður-Afríku árið 1992, en skipið var notað sem skotmark í heræfingu á hafi úti. 

Það var suður-afríska fyrirtækið Sea Harvest sem festi kaup á Birtingi og Barða á sínum tíma af Síldarvinnslunni og hóf að gera þá út á lýsingsveiðar (hake). Barði fékk nafnið Harvest Kirstina  og Birtingur nafnið Harvest Bettina eftir að þeir voru skráðir í Suður-Afríku. Harvest Kirstina er enn gerð út á vegum Sea Harvest en Harvest Bettina var hins vegar lagt árið 2009 og var þá ráðgert að selja hann í brotajárn.

Eftir að hafist var handa við að hirða úr skipinu allt nýtilegt áður en það yrði rifið hafði suður-afríski sjóherinn samband við brotajárnsfyrirtækið og spurðist fyrir um hvort þýski sjóherinn gæti fengið skipið en ætlunin væri að nota það sem skotmark á heræfingu. Niðurstaðan varð sú að þýski herinn fékk skipið og hlaut það þá nafnið Betti. Þegar þýski herinn tók við skipinu lá það í höfn í Saldanha Bay en þaðan var það dregið til flotastöðvarinnar í Simons Town.

Frá Simons Town var skipið síðan dregið á svæðið sem heræfingin fór fram á (De Hoop Missile Test Range) en það er austur af Cape Agulhas, syðsta odda Afríku. Á heræfingunni var Betti síðan skotin í kaf en ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega hvenær heræfingin fór fram á árinu 2009.

Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar.