sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bjart útlit í norskum sjávarútvegi

13. nóvember 2008 kl. 16:06

Í miðri fjármálakreppunni er bjart framundan í norskum sjávarútvegi, segir í forustugrein Fiskebåtrederen, málgagns samtaka norskra útgerðarmanna.

Bent er á að sjávarútvegurinn og hið almenna efnahagslíf gangi ekki alltaf í takt og nú líti út fyrir að sigurvegarinn í kreppunni 2009 verði atvinnugrein veiða og vinnslu.

Máli sínu til stuðnings bendir leiðarahöfundurinn á að olíuverð hafi snarlækkað, vextir séu á niðurleið og gengi norsku krónunnar sé orðið hagstæðara sjávarútveginum en fyrr. Allt þetta hafi breyst til batnaðar á fáum mánuðum.

Reyndar er varað við því að menn fagni of fljótt, en mörg teikn séu á lofti sem gefi tilefni til bjartsýni. Auk þeirra atriða sem að framan greinir er bent á að ástand fiskistofna sé gott og þegar hafi verið gefnir út auknir kvótar bæði í þorski og makríl.