miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Björg EA er tímamótaskip

Guðjón Guðmundsson
2. nóvember 2017 kl. 11:43

Guðmundur Freyr Guðmundsson, skipstjóri Bjargar EA, í brúnni á nýja skipinu. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Björg EA er fjórða og síðasta skipið af þessu tagi sem smíðað er í Tyrklandi og afhent hefur verið á þessu ári. Hin eru Kaldbakur EA, Björgúlfur EA og Drangey SK

Áhöfnin á Björgu hélt utan 9. október til að sækja nýja skipið og dvaldist í Tyrklandi í sex daga áður en haldið var í siglinguna heim. Þessir dagar fóru í það að undirbúa brottför og fara nánar yfir alla hluti sem tengdust siglingunni. Alls voru 14 í áhöfn þegar farið var frá skipasmíðastöðinni í Yalova en níu skiluðu sér alla leið til Eyjafjarðar. Tæknimaður Brimrúnar sem hefur jafnan siglt með nýju skipunum fyrsta spölinn til að tryggja að tækin vinni öll rétt, varð eftir í Algiciras á Spáni ásamt 4 öðrum farþegum og flugu þau þaðan til Íslands.

Stór stund sem beðið hefur verið eftir
Einn í áhöfninni var Óskar Magnússon, fyrrverandi útgefandi Morgunblaðsins og núverandi stjórnarmaður Samherja. Hann munstraði sig í ferðina sem háseta og hefur sagt frá gangi mála á Facebook síðu Samherja.

„Við höfum ekki rætt það hvort hann verði áfram í áhöfninni. Það á eftir að ræða framhaldið. Mitt mat er að hann loksins hafa fundið réttu hilluna í lífinu,“ gantast Guðmundur.

Hann segir það hafa verið ljúfa tilfinningu að taka á móti nýja skipinu. Hann hafi fyllst stolti og ánægju eins og öll áhöfnin.

„Þetta var stór stund sem beðið hefur verið eftir í tvö ár. Stemningin var þó hófstillt en mikill spenningur í áhöfninni. Á bryggjunni var hópur manna sem hafði unnið að smíði skipsins og hafði einn þeirra á orði að tilfinningin að sjá á eftir því væri skrítin. Þetta er var síðasta skipið í raðsmíðinni og þarna blandaðist saman ánægju- og saknaðartilfinning fyrir marga,“ segir Guðmundur Freyr, sem einnig fór í austurveg í ágúst síðastliðnum og var í hlutverki 2. stýrimanns þegar Drangey SK, nýjum togara FISK Seafood, var siglt heim.

Haldið var af stað frá Cemre skipasmíðastöðinni til Istanbul þar sem skipið var fyllt af olíu. Þaðan var haldið til Algiciras á Spán og stefnan svo sett á Ísland. Sjólag var besta móti allan tímann.

Haggaðist ekki í brælunni
„Við fengum 20 metra vind á hlið á sunnudagskvöldið en skipið er svo ótrúlega gott að hefði maður ekki séð sjólagið með eigin augum hefði maður haldið að það væri sléttur sjór. Það hreyfist ótrúlega lítið í sjó. Það er ekki hægt að líkja því við önnur skip í svipuðum stærðarflokki sem ég hef verið á. Ég hef verið á Oddeyrinni og Akureynni, sem er Snæfellið í dag, og þetta er ekki samanburðarhæft. Það er allt annað skrokklag á skipinu og fer allt öðru vísi með sig. Við prófuðum að setja hana aðeins beint upp í þessa 20 metra og keyra vel á því. Við þessar aðstæður hefði maðurt búist við smá barningi miðað við hefðbundnu skipin en vegna lagsins á stefninu fann áhöfnin ekki fyrir því. Ef það kemur bræla þá brosir maður breiðar,“ segir Guðmundur.

Hann segir að stöðugleiki skipsins hafi allt að segja fyrir áhöfnina. Stór hluti af öllu erfiði úti á sjó, fyrir utan langar fjarverur, er að standa veltuna. Á öllum skipum er einstaklega lýjandi að vera við veiðar í brælu og menn hvílist jafnvel lítið þótt þeir séu á frívakt. Einnig skipti þetta miklu máli varðandi öryggi áhafnarinnar.

„Menn eru mun betur varðir inni á dekki. Oft er opið inn á síðurnar að aftanverðu en því er ekki að heilsa á Björgu. Þetta er einfaldlega tímamótaskip sem byggir á vel heppnaðri hönnun.“

Til veiða í febrúar/mars
Þegar heim er komið hefjast viðbæturnar en til stendur að setja niður í skipið fullbúið millidekk með ofurkælingu og tilheyrandi búnaði. Það verður fyrsta skipið af þessum 3 raðsmíðuðu skipum  Samherja sem verður með fullkláruðu millidekki. Stefnt er að því að haldið verði til veiða um mánaðamótin febrúar/mars. Guðmundur Freyr segir þetta spennandi tíma og það verði skemmtilegt verkefni fyrir áhöfnina að taka við skipinu fullbúnu með öllum þeim tæknibúnaði sem bætist við.

Hann segir að brúin sé einstaklega vel hönnuð fyrir skipstjórnendur. Skjáir séu í raun færri en til dæmis í Oddeyrinni því hægt er að keyra upp öll tækin á sama skjáveggnum sem er um þrír fermetrar. Hægt er að stilla upp tækjunum á þessa fjóra skjái eins og menn kjósa og möguleikarnir eru margir. Þetta er í fyrsta sinn á heimsvísu sem skjálausnir af þessu tagi eru innleiddar í brú fiskiskipa.

Fyrsti stýrimaður verður Árni Rúnar Jóhannesson og yfirvélstjóri verður Kjartan Vilbergsson sem báðir voru með Guðmundi Frey á Oddeyrinni. Þar sem enn er talsvert í að skipið fari til veiða hefur annar mannskapur ekki verið ráðinn.