þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blængur kominn úr góðum túr

1. ágúst 2019 kl. 12:00

Blængur við bryggju í Neskaupstað. MYND/Hákon Ernuson

„Við byrjuðum í þokkalegu grálúðukroppi, síðan var farið í Berufjarðarál í ufsa og loks var ýsa veidd á Stokksnesgrunni.“

Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í gær úr góðum tveggja vikna túr. Afli skipsins var 300 tonn upp úr sjó að verðmæti 134 milljónir króna. Síldarvinnslan hf. greinir frá.

Theodór Haraldsson skipstjóri segir að túrinn hafi í reynd gengið afar vel og verið tíðindalítill.

„Við byrjuðum í þokkalegu grálúðukroppi, síðan var farið í Berufjarðarál í ufsa og loks var ýsa veidd á Stokksnesgrunni. Veiðin var góð lengst af og fiskað eins og vinnslan hafði undan. Það var blíðuveður allan túrinn, en kolsvört þoka. Þokan var svo dimm að við sáum oft ekki aftur á gálga,“ segir Theódór.

Blængur heldur til veiða á ný eftir verslunarmannahelgi.