miðvikudagur, 15. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blængur NK hefur sérstöðu

12. nóvember 2019 kl. 14:39

Blængur NK á siglingu. Mynd Þorgeir Baldursson

Eini frystitogari Austfirðinga hét upphaflega Ingólfur Arnarson og var keyptur nýr frá Spáni árið 1974

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað fjallar um frystitogarann Blæng NK 125 á vef sínum. Fyrirtækið keypti hann sumarið 2015 af Ögurvík hf. Skipið hét þá Freri en bar upphaflega heitið Ingólfur Arnarson og var smíðaður á Spáni fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Skipið kom nýtt til landsins í janúarmánuði 1974. Bæjarútgerðin átti togarann til ársins 1985 en þá festi Ögurvík kaup á honum og þá var honum breytt í frystiskip. Árið 2000 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á togaranum en þá var hann meðal annars lengdur um 10 metra og aðalvél endurnýjuð. Einnig var vinnslulínan endurnýjuð svo og frystilestin. Skipið er 79 metra langt eftir breytingarnar og búið 5000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila. Það er 1723 brúttótonn að stærð.

„Blængur NK er eini frystitogari Austfirðinga og því hefur hann nokkra sérstöðu,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.

Skipstjórar eru þeir Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson og segja þeir skipið upphaflega hafa verið fyrst og fremst gert út á ufsa, karfa og grálúðu, en það eru tegundirnar sem íslenskir frystitogarar hafa  lagt áherslu á að veiða á undanförnum árum. Um væri að ræða hörkuskip með miklum togkrafti og Blængur væri nú eitt af öflugustu togskipum Íslendinga. „Skipið er öflugt veiðitæki og oft gaman að fiska á það,“ segir Theodór.

„Árið í ár hefur verið afar gott. Við erum búnir að fiska fyrir 2,1 milljarð króna á árinu og enn eru hátt í tveir mánuðir eftir af því. Árið 2018 fiskuðum við um 6000 tonn allt árið en nú erum við búnir að fiska 6.900 tonn og það má reikna með að ársaflinn fari að minnsta kosti í 7.500 tonn,“ segir Bjarni Ólafur. Líklega mun afli skipsins í ár verða sá mesti sem austfirskur togari hefur skilað á land.

Þó svo að áhersla sé helst lögð á ufsa- og karfaveiði á miðunum við Ísland hefur Blængur farið í Barentshafið bæði í ár og í fyrra og fiskað þorsk. „Barentshafstúrarnir hafa skipt okkur miklu máli en þar var veitt í maímánuði 2018 og í júní 2019. „Sérstaklega var Barentshafstúrinn í ár glæsilegur en þá veiddum við 1500 tonn af þorski og var aflaverðmætið um 500 milljónir. Veiðin gekk í alla staði eins vel og hægt var að hugsa sér,“ segir Theodór.

Nánar er sagt frá skipinu á vef Síldarvinnslunnar.