laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blængur á sífelldum flótta undan veðri

2. mars 2020 kl. 13:00

Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í gær með 600 tonn af gullkarfa og djúpkarfa, gulllaxi og þorski

„Við byrjuðum fyrir austan land, fórum síðan suðurfyrir, þá á Vestfjarðamið og loks suður fyrir aftur. Staðreyndin er sú að það var veðrið sem stjórnaði því hvar veitt var. Þetta var eilífur flótti undan veðri," segir Theodór Haraldsson, skipstjóri á frystitogaranum Blængi NK.

Það var tíðindamaður Síldarvinnslunnar sem ræddi við Theodór og segir frá á heimasíðu fyrirtækisins.

"Ég man bara ekki eftir svona tíðarfari  eins og verið hefur í vetur, það hefur í sannleika sagt verið djöfullegt. Áhöfnin er orðin afar þreytt á þessu en nú hlýtur þetta að fara að lagast, þetta getur ekki verið svona endalaust. Í veiðiferðinni leituðum við mikið að ufsa en það tókst ekki að finna hann í neinu magni. Það er engu líkara en hann hafi tekið sér frí frá miðunum hér,“ segir Theodór.

Togarinn kom til Neskaupstaðar í gær eftir tæplega mánaðar túr. Aflinn var tæplega 600 tonn upp úr sjó, mest gullkarfi og djúpkarfi, gulllax og þorskur. Verðmæti aflans er um 160 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný nk. fimmtudag.