miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blængur úr síðasta túr kvótaársins

28. ágúst 2020 kl. 08:15

Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Frystitogarinn Blængur NK liggur fjærst, þá Hákon EA sem er að landa frystum makríl og næst liggur Bjarni Ólafsson AK sem er að landa makríl til vinnslu. Mynd/Smári Geirsson

Mikið er spurt um að komast í skipsrúm á Blængi. Skipstjóri segir að greinilegt sé að það þrengi að hjá mörgum.

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar á miðvikudag og hefur þar með lokið veiðum á yfirstandandi kvótaári. Afli skipsins í veiðiferðinni var 725 tonn upp úr sjó að verðmæti um 265 milljónir króna. 

Frá þessu er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, en um helmingur aflans er ufsi. Einnig þorskur, gullkarfi og grálúða. 

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að túrinn hafi einkennst af því að vera síðasti túr kvótaársins. 

„Í túrnum þurftum við að veiða það sem eftir var að veiða á kvótaárinu. Við vorum mest fyrir vestan frá Hala og vestur á Hampiðjutorg og síðan vorum við í grálúðu fyrir austan land. Það var gott veður allan tímann og þá er ekki hægt að kvarta. Auk þess má segja að túrinn hafi einkennst af ágætis kroppi þannig að menn eru sáttir. Upp á síðkastið hefur mikið verið hringt og spurt um pláss á skipinu þannig að það virðist vera að þrengja að víða. Ég hef ekki upplifað svona margar hringingar áður. Það koma engin símtöl frá Austfirðingum, þau koma flest frá höfuðborgarsvæðinu og Akureyri og það eru bæði vanir og óvanir menn sem hafa samband,“ segir Bjarni Ólafur.

Blængur heldur í fyrstu veiðiferð nýs kvótaárs síðdegis á mánudag.