sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blíðari móttökur á Fáskrúðsfirði

26. ágúst 2010 kl. 16:20

Færeyska skipið Jupiter sem komst í heimsfréttirnar á dögunum þegar það lenti í hremmingum í Skotlandi vegna makrílstríðsins er eitt þeirra færeysku skipa sem landar gjarnan afla sínum á Fáskrúðsfirði. Jupiter landaði einmitt makríl á Fáskrúðsfirði í næsta túr á undan ævintýrinu í Skotlandi og fékk að sjálfsögðu blíðari móttökur.

Jupiter landaði 2.300 tonnum hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði 13. ágúst. Megnið af aflanum var makríll en síld og kolmunni í bland. Aflinn fór í bræðslu. Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri hjá Loðnuvinnslunni, sagði í samtali við Fiskifréttir að skipstjórinn á Jupiter hefði landaði í Skotlandi í túrnum þar á undan og fengið frekar óblíðar móttökur. Hann hafði því á orði að hann færi ekki aftur til Skotlands í bráð nema gera ráðstafanir til að verja sig. Í næsta túr stóðst hann samt ekki freistinguna þegar fréttir bárust af himinháu verði fyrir makríl í Peterhead. Sjómenn í Peterhead komu hins vegar í veg fyrir löndun Jupiters sem kunnugt er. Farið var með aflann til Fræeyja og landað í bræðslu. Tekjutap Jupiters vegna aðgerða skoskra sjómanna nam um 100 milljónum ISK.