föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Borða mest heima þvert á almannaróm

Svavar Hávarðsson
6. september 2020 kl. 09:00

Bandaríkjamenn elda sinn fisk heima, svikalaust. Aðsend mynd

Svo virðist sem ný könnun á kauphegðun og neysluvenjum í Bandaríkjunum hafi afsannað að landamenn kjósi að borða sinn fisk á veitingahúsum að stærstum hluta.

Lengi hefur það verið talinn sem heilagur sannleikur að Bandaríkjamenn kjósi að kaupa sinn fisk á veitingahúsum, stórum sem smáum. Aðeins lítill hluti sjávarfangs sé matreiddur heima í eldhúsi. Þetta hafa þeir sem markaðssetja fisk fyrir Bandaríkjamarkað oft haft að leiðarljósi.

Svo virðist hins vegar sem ný könnun á kauphegðun og neysluvenjum á þessum risamarkaði hafi afsannað að þetta sé tilfellið.

Rannsóknamiðstöðin John Hopkins Center for a Livable Future hefur sent frá sér skýrslu þar sem spurningunni um hvar Bandaríkjamenn borða sinn fisk, er svarað. Könnunin var aðkallandi fyrir þá sem höndla með sjávarfang því árið 2017 skiptu 102 milljarðar bandaríkjadala um hendur við fiskkaup af ýmsu tagi. Það eru litlir fjórtán þúsund milljarðar íslenskra króna. Sýnt hafði verið fram á að 65% þeirra viðskipta voru á veitingahúsum af öllu tagi. Því hefur verið gengið út frá því sem vísu að meirihluti sjávarfangs sé matreitt ofan í Bandaríkjamenn og aðeins lítill hluti þess magns sem þar er neytt sé seldur í smásölu; fiskbúðum, stórmörkuðum eða öðrum verslunum þar sem fiskur er boðinn til sölu.

Elda sinn fisk

Niðurstaða þessarar nýju könnunar tekur hins vegar af allan vafa um að Bandaríkjamenn elda sinn fisk sjálfir í miklu magni. Reyndar er mun meira af fiski eldað heima í eldhúsi en keyptur er á veitingahúsunum. Peningarnir sem skipta um hendur hafa hins vegar afbakað staðreyndir málsins.

Þegar sala sjávarfangs var metin eftir þyngd/magni þá kom í ljós að 61% þess var eldað og neytt heima við en 39% á veitingahúsum. Þá var tekið inn í myndina bæði fiskur sem var keyptur úti í búð og sá fiskur sem menn veiddu sjálfir – en það var um átta prósent af heildinni.

Könnunin horfði sérstaklega á nokkrar vinsælar fisktegundir. Kom fram að meirihlutinn af ferskum laxi, niðursoðnum túnfiski og tilapiu var eldaður heima. Krabbi, rækjur og þorskur hafa hins vegar vinninginn á veitingahúsunum.

Könnunin sýndi einnig að karlmenn borða meiri fisk en konur. Eins að fólk á aldrinum 31 til 50 ára borða meira en fólk á öðrum æviskeiðum. Þá einnig að Bandaríkjamaður er líklegri til að kaupa fisk eftir því hversu vel stæður hann er.

Meðalneysla Bandaríkjamanna á sjávarfangi er ekki mikil miðað við mörg Evrópulönd. Að meðaltali borðar Bandaríkjamaður rúmlega fimm kíló á fiski á ári, eða tíunda hluta af því sem meðaljóninn í Portúgal borðar á ári.

Tvö kíló á mánuði

Að meðaltali snæddu íbúar Evrópusambandslandanna 24,35 kíló af sjávarfangi árið 2017, og komu þrír fjórðu af því frá veiðum á villtum fiski.

Þetta kemur fram í riti frá EUMOFA, sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins er sinnir markaðseftirliti og greiningu á markaði með sjávar- og eldisafurðir í Evrópu, frá því í fyrra.

Vinsælasta fisktegundin í Evrópu er túnfiskur en þar næst koma þorskur og lax. Portúgalar eru langduglegastir í fiskáti allra ESB-þjóða. Þeir snæddu 56,8 kíló á mann að meðaltali á árinu. Næstir koma Spánverjar með 45,6 kíló á mann. Ungverjar borða hins vegar minnst af fiski, aðeins 5,6 kíló á mann, og næst koma Búlgarir og Rúmenar með sjö til átta kíló.

Sérfræðingar í markaðsfræðum túlka niðurstöðurnar sem svo að um mikilvægar niðurstöður sé að ræða fyrir þá sem annast markaðssetningu í landinu.