þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Börkur NK aflahæstur á norsk-íslensku síldinni

7. október 2009 kl. 15:00

Íslensk skip hafa landað rétt rúmum 212 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld á vertíðinni. Er það um 6 þúsund tonnum umfram aflamark. Börkur NK er aflahæstur með um 17.850 tonn.

Úthlutað aflamark í norsk-íslensku síldinni í ár er 194 þúsund tonn en því til viðbótar kemur 12 þúsund tonna aflaheimild sem flutt var frá árinu á undan. Í heild er aflamarkið því rétt rúm 206 þúsund tonn. Heimilt er að flytja tiltekinn hluta kvótans milli ára eða veiða ákveðið magn umfram aflamark sem verður þá dregið frá kvóta næsta árs. Þar sem ekki hefur verið gefinn út kvóti í íslensku síldinni í haust er greinilegt að skipin nýta sér nú möguleikann til umframveiða.

Næstu skip á eftir Berki NK eru Ingunn AK með 13.995 tonn, Álsey VE með 13.809 tonn og Ásgrímur Halldórsson SF með 13.116 tonn.

Þessu til viðbótar eiga íslensk skip 44.362 tonna kvóta í norsk-íslenskri síld í norskri lögsögu. Af þeim kvóta voru veidd 3.900 tonn í janúar. Íslensku skipin eru nú að veiðum í Síldarsmugunni en munu væntanlega fara að hugsa sér til hreyfings inn í norsku lögsöguna á næstu dögum og vikum.