föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Botntaka humars mikilvæg

18. september 2015 kl. 09:04

Kanadískur humar.

Málstofa Hafró hefur göngu sína á ný

Málstofa Hafrannsóknastofnunar hefur göngu sína að nýju eftir sumarhlé, fimmtudaginn 24. september n.k. kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4. Hægt er að kynna sér dagskrá haustmisseris á heimasíðu stofnunarinnar: www.hafro.is 

Nýr liðsmaður á Hafrannsóknastofnun, Guðjón Már Sigurðsson, ríður á vaðið og flytur erindi sem hann nefnir: Botntaka humars í Fundyflóa: Ferlar og mynstur

Guðjón hóf störf á Hafrannsóknastofnun þann 1. september sl. og mun hann sinna stofnmati á flatfiskum og rannsóknum á brottkasti. Erindi Guðjóns byggir á rannsóknum hans í doktorsnámi við Háskólann í New Brunswick í Kanada.

Ágrip:
Hjá hinum ýmsu humartegundum hefur komið í ljós að botntaka lirfustigsins er einn mikilvægasti tíminn í lífsferlinum og hefur lirfufjöldinn verið notaður sem nýliðunarvísitala við stofnmat á humri t.d. í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Þá eru rannsóknir hafnar á humri í Karabíska hafinu og undan austurströnd Bandaríkjanna með svipuð markmið í huga. 

Í kjölfar funda með humarsjómönnum á austurströnd Kanada kom í ljós mikill áhugi á að hefja nýliðunarrannsóknir á þeim slóðum. Í framhaldinu var sett á laggirnar rannsóknaverkefni með það að markmiði að finna botntökusvæði og á hvaða hátt hentugast væri að safna gögnum um nýliðun humars. Einnig var rannsakað hvaða líffræðilegu ferlar og umhverfisþættir hefðu áhrif á hvar botntakan ætti sér stað. Sýnum var safnað með sérstökum humargildrum á tveimur stórum svæðum við Fundyflóa að sumarlagi á árunum 2010 – 2013. 
Líkönum var beitt til að kanna hvaða áhrif hinir ýmsu þættir hefðu á útbreiðslu. Niðurstöður sýndu að NAO fyrirbrigðið (North Atlantic Oscillation Index) hafði mest áhrif en einnig fjöldi unghumra, dýpi og yfirborðshiti. Þá virtust vera til staðar aðrar sveiflur sem ekki var hægt að útskýra.