þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bráðnun jökla vinnur gegn hækkun sjávarborðs

Guðsteinn Bjarnason
16. september 2018 kl. 14:00

Ís við Grænland.

Hafið heldur áfram að hlýna og súrna, jöklarnir bráðna og yfirborð sjávar hækkar

Mælingar styðja ekki kaldi bletturinn suðvestur af Íslandi stafi af bráðnun Grænlandsjökuls. Ískaldir vetrarvindar frá Labrador virðast skipta þar meira máli.

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, hélt í síðustu viku fyrirlestur í Ljósmyndasafni Íslands í tilefni af athyglisverðri sýningu þar á ljósmyndum eftir Olaf Otto Becker. Ljósmyndir Olafs Otto fjalla allar um áhrif hnattrænnar hlýnunar.

Halldór rakti þar helstu áhrif hnattrænnar hlýnunar hér á landi og í hafinu umhverfis, og studdist þar við ítarlega skýrslu Veðurstofu Íslands um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Halldór er ritstjóri skýrslunnar en hún var gefin út síðastliðið vor.

Fyrir löngu er orðið ljóst að hér við land sem annars staðar mun yfirborð sjávar hækka. Sömuleiðis er ljóst að súrnun sjávar mun halda áfram.

Áhrif súrnunar lítt þekkt

Súrnun sjávar hefur raunar orðið hraðari norðan við Ísland en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Halldór segir það tengjast því að þar er ákveðin tegund af kaldsjá sem er óvenju viðkvæm, og þess vegna verður súrnunin meiri þar.

Hann segir ekki ljóst nákvæmlega hvaða breytingar súrnunin mun hafa á lífríkið í sjónum.

„Það eru þegar til dæmi um að súrnun hafi neikvæð áhrif á lífríkið, en þó ekki héðan,“ sagði Halldór. „Tilfellið er þó að með súrnun er erfitt að sjá einhverja jákvæða þætti.“

Það er í sjálfu sér áhyggjuefni. En við vitum ennþá voða lítið um það hvaða áhrif hún hefur. Við vitum þó nú þegar að hún getur haft neikvæð áhrif til dæmis á ostrurækt.“

Sumar tegundir geti verið viðkvæmari fyrir súrnun en aðrar. Þær sem betur þoli súrnunina geti þannig notið ákveðins samkeppnisforskots um tíma, en að lokum virðist það vera þannig að súrnunin verði neikvæð fyrir nánast allar lífverur sem við þekkjum.

Þarf nettó upptöku

Frekari súrnun er óhjákvæmileg og jafnvel þótt mannkyninu beri gæfu til að stöðva nánast alla losun gróðurhúsalofttegunda þá muni súrnunin ekki stöðvast. Hún heldur áfram á meðan hafið heldur áfram að taka í sig koltvísýring úr lofthjúpnum.

„Þannig að það þarf bókstaflega að snúa þessu við. Það þarf að þróa aðferðir til að draga úr styrkleik co2 í lofthjúpnum,“ segir hann. „Það þarf nettó upptöku til að stoppa súrnunina.

Einfaldasta leiðin til þess er að rækta skóg eða endurheimta jarðnæði á einhvern hátt. Alls konar hugmyndir að lausnum hafa skotið upp kollinum, en Halldór segir þær ekki allar sérlega trúverðugar.

Af öðrum áhrifum hlýnunar hér við land má búast við að hækkun sjávarborðs geti haft veruleg áhrif víða við strendur landsins.

„Það er útlit fyrir verulega sjávarstöðuhækkun hér við Ísland,“ segir Halldór. Hækkunin dreifist mjög misjafnt yfir heimsbyggðina og hún dreifist líka mjög misjafnt við strendur Íslands, þó hér verði hún líklegast nokkuð minni en að jafnaði á heimsvísu.

Flókið samspil

Fyrir um tuttugu árum voru flestir á því að meðaltals hækkun sjávarstöðu jarðar gæti orðið allt að einn metri ef allt fer á versta veg, en frekari þekking hefur orðið til þess að nú eru flestir á því að eins metra hækkun sé ekki talin ólíkleg og hún geti orðið allt að einn og hálfur metri á öldinni. Er þá miðað við verstu sviðsmyndina af fjórum, þar sem minnstur árangur næst við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnunin yrði því mest.

Orsaka sjávarstöðuhækkunar má leita bæði til þess að hafið þenst út þegar það hlýnar og þess að bráðnun jökla eykur vatnsmagnið í hafinu. Þetta samspil er hins vegar harla flókið, ekki síst þegar þyngdaráhrif jökla á næsta umhverfi er tekið með í reikninginn.

„Þegar jöklar hopa léttir farginu á skorpunni,“ segir Halldór. Landrisið vinnur á móti hækkandi sjávarstöðu, en landrisið er og verður mest á suðausturlandi vegna Vatnajökuls og skriðjöklanna frá honum.

„Landris er mjög ákaft við suðausturströndina. Við Höfn í Hornafirði er það sentimetri á ári, sem er metri á öld. Það er meira við Breiðamerkurlón, og þetta er það hratt að fyrirsjáanleg sjávarstöðuhækkun mun ekki halda í við þetta.“

Annars staðar á landinu er land ýmist að rísa eða síga.

„Land er að síga á suðvesturhorninu, en það er af öðrum ástæðum og tengist ekki loftslagsbreytingum. Hins vegar er vont að vera á landi sem er að síga þegar sjávarstaða hækkar."

Í skjóli Grænlandsjökuls

Almennt séð veldur bráðnun jökla einnig því að sjávarstaðan hækkar, en á móti kemur að þyngdarsviðsbreytingar næst þeim valda því að bráðnun jöklanna vinnur gegn hækkun sjávarstöðu í nágrenni þeirra.

„Þetta hefur áhrif á Íslandi því við erum í skjóli við Grænland þannig að ef Grænlandsjökull bráðnar mikið þá vinnur það gegn sjávarstöðuhækkun hér. Hins vegar ef Suðurskautsísinn bráðnar þá fáum við það allt ómengað.“

Bráðnun Grænlandsjökuls og hafíss á norðurslóðum hefur einnig verið talin geta leitt til þess að hlýir straumar sunnan úr höfum til Íslands veikist eða stöðvist jafnvel, sem gæti haft í för með sér mikla kólnun hér á landi þrátt fyrir almenna hlýnun á jörðinni.

Kaldi bletturinn svonefndi í hafinu fyrir suðvestan Ísland hefur verið talinn merki um þessa breytingu, og Halldór sagði þá hugmynd virðast trúlega svona við fyrstu sýn. Hann bætti síðan við að mælingar staðfestu þetta þó ekki, heldur virtist sem að ískaldir vetrarvindar af Labradorsvæðinu eigi frekar sökina.

Sjúga hitann úr sjónum

„Þegar mjög hvassar vetrarlægðir hafa komið frá Labrador þá sjúga þær allan hita upp úr sjónum. Það gerist ár eftir ár og þá myndast svona kjarni af köldum sjó sem fer ekkert þó það hlýni yfir hann á sumrin. Svo er hann til staðar og kemur aftur fram á veturna.“

Breytingar í hafinu hafa síðan haft bein áhrif á veðurfarið hér á landi. Hér hlýnaði mjög ákaft upp úr 1995 og hlýindin sem hafa verið hér undanfarna tvo áratugi má rekja til þess að hingað kom bæði heitari og saltari sjór sunnan úr höfum.

„Það kom inn hlý tunga af heitu vatni sem hefur haldist mjög áköf, og það má að mörgu leyti rekja þessa hlýnun á landinu til einhvers sem er að gerast í sjónum.“

Varðandi hlýnun almennt þá segir Halldór spárnar sýna meðaltöl, en áratugasveiflur geta vikið töluvert frá þeim meðaltölum.

„Það er alveg öruggt að hér koma áfram hlýir áratugir og kaldir áratugir,“ segir hann. Þá segir hann að hlýnunin verði meiri að vetri til en á sumrin, og að úrkoma muni líklega aukast í heildina þó þurrkadögum muni fjölga. Úrkoman verður ákafari og á næstu öldum munu jöklar á Íslandi að mestu hverfa.

Eini áhugaverði staðurinn

„Meginlöndin hlýna meira en hafsvæðin, og norðurhjarinn hlýnar meira en öll önnur svæði. Og Ísland er þarna einhvers staðar á milli. Það er við hafsvæði sem ætti þar með að hlýna minna en við erum líka rétt fyrir sunnan norðursvæðin sem hlýna mjög mikið. Það hittir svo á að við erum býsna nærri meðaltalinu, en hins vegar er óvissan hér meiri því rétt fyrir norðan okkur hlýnar mjög mikið en rétt fyrir sunnan okkur hlýnar afskaplega lítið.“

Líkönum ber að mestu saman um þróun hlýnunar miðað við ólíkar sviðsmyndir, en hér fyrir sunnan Ísland segir Halldór að líkönin eigi erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

„Nokkurn veginn eini áhugaverði staðurinn í heiminum þar sem líkönum ber ekki saman er sunnan við Ísland, sem er ástæðan fyrir því að hann er áhugaverður.“