laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bræðslumenn í Eyjum samþykkja verkfall

8. febrúar 2011 kl. 09:18

Loðnuvertíðin er nú að ná hámarki.

Atkvæði starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunum á Austurlandi verða talin fyrir hádegi í dag.

Starfsmenn í tveimur loðnubræðslum í Vestmannaeyjum samþykktu að hefja verkfall eftir viku, um það leyti sem loðnuvertíðin nær hámarki. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV. Atkvæði bræðslumanna af Austurlandi verða talin fyrir hádegi.

Starfsmenn í átta loðnubræðslum á svæðinu frá Vopnafirði til Vestmannaeyja greiddu atkvæði í gær um verkfallsboðun. Atkvæði félagsmanna í bræðslum Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum voru talin í gær og verkfall samþykkt þar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls Starfsgreinafélags, segir í samtali við RÚV að hann búist við að úrslitin verði svipuð í bræðslunum á Austurlandi. Við munum hittast á Djúpavogi með atkvæðakassa frá norðursvæðinu og frá Hornafirði. Samþykki félagsmenn verkfall hefst það á þriðjudaginn eftir viku. Það yrði ótímabundið og myndi því hafa áhrif á loðnuvertíð sem er við það að ná hámarki.

 Fréttavefur RÚV