mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bræla hamlar loðnuveiðum í dag

13. mars 2012 kl. 13:58

Guðmundur VE á siglingu nú á vertíðinni. (Mynd: Viðar Sigurðsson)

Útlit er fyrir betri tíð næstu daga, en loðnan er á endasprettinum.

,,Skipin hafa verið að berja á smápeðrum hér í Faxaflóanum í morgun með litlum árangri enda erfitt að kasta fyrir veðri. Það gengur á með éljum eða skúrum, vindurinn fer upp í 20 metra á sekúndu og það er vaxandi sjór,“ sagði Sturla Einarsson skipstjóri á loðnuskipinu Guðmundi VE þegar Fiskifréttir náðu tali af honum nú upp úr hádeginu.

Hann sagði að vertíðin væri að ýmsu leyti farin að taka á sig lokamynd. Hængurinn væri farið að skilja sig frá hrygnunni í sértorfur og sumt af hrygnunum væri þegar hrygnt.

,,Það virðist vera að koma eitthvað meira af loðnu á svæðið austan við Reykjanes og skipin sem verið hafa í Faxaflóanum er nú á leiðinni þangað. Við erum að vonast til þess að þar verði hagstæðari vindátt gagnvart kaststefnunni og því meiri friður til veiða. Ef einhver von er til þess að fá afla í dag er það þeim megin við Reykjanesið. Ísleifur VE kom í morgun frá Eyjum og hann er búinn að kasta suðaustur úr Grindavík,“ sagði Sturla.

Sturla sagði að veiðarnar á vertíðinni hefðu almennt gengið vel þegar veður leyfði. ,,Það er hins vegar með ólíkindum, að einmitt þessar tvær til þrjár vikur þegar allt var undir því komið að fá gott veður skyldi tíðarfarið vera svona slæmt. Reyndar spáir vel eftir daginn í dag þannig að vonandi tekst að klára kvótann," sagði Sturla Einarsson.