þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bræla á loðnumiðunum

3. mars 2011 kl. 14:15

Beitir NK á loðnuveiðum (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Tíu til tólf skip bíða við Snæfellsnes eftir að veður lægi

,,Það er rólegt í augnablikinu hérna á loðnumiðunum. Við vorum norðan við Snæfellsnesið í nótt en erum nú að lóna suður á bóginn á ný. Það er ennþá bræla en því er spáð að veður lægi þegar líður á daginn,” sagði Leifur Þormóðsson stýrimaður á Beiti NK frá Neskaupstað þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans um klukkan 14 í dag.

,,Reyndar hefur vertíðin einkennst af miklum umhleypingum og það þarf sífellt að sæta lagi. Það var smá stund milli stríða í gær og þá fengum við hátt í þúsund tonn af loðnu norðarlega í Faxaflóanum í fjórum köstum. Við byrjuðum fyrir hádegi og vorum að fram yfir kvöldmat,” sagði Leifur.

Að sögn Leifs eru 10-12 loðnuskip nú við Snæfellsnes. Hann sagði að hluti loðnunnar væri farinn að leggjast á botninn en var samt vongóður um að flotinn næði að veiða útgefinn kvóta.