miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bræla truflar loðnuleitina

23. nóvember 2021 kl. 12:09

Bjarni Ólafsson AK 70. Mynd/Þorgeir Baldursson

Haft er á orði að það kæmi sér vel að stækka trollsvæðið svo hægt væri að veiða loðnu sem skipin hafa þó fundið.

„Það er frekar lítið að frétta. Við vorum í gær austan við Kolbeinseyjarhrygginn og þar urðum við varir við loðnu. Vandinn er hins vegar sá að hún stendur djúpt og er ekki farin að mynda almennilegar torfur,“ segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, þegar heimasíða Síldarvinnslunnar í Neskaupstað innti hann eftir fréttum af loðnuleit. Þorkell bætir því við að þessi staða leiði til þess að loðnan er ekki veiðanleg í nót en mögulegt væri að ná árangri með flottrolli.

„Það er aftur á móti ekki heimilt að veiða með trolli fyrir vestan 14.30 gráðuna en við fundum loðnuna þarna á 17.30. Það þyrfti sem sagt að stækka trollhólfið í vestur til að veiða loðnuna sem við urðum varir við. Það brældi síðan á okkur og það var ekki annað að gera en að fara í land,“ bætir Þorkell við en skipið kom til Akureyrar klukkan þrjú í nótt.

„Svanur RE er einnig kominn hingað en hann var í loðnuleit eins og við. Þá er sænska skipið Clipperton einnig komið. Það hefur verið að leita að loðnu í Grænlandssundinu en árangur hefur verið lítill. Hann spáir illa í dag en það á eitthvað að lægja á morgun. Síðan verður aftur einhver bræla á fimmtudag en allt útlit er fyrir gott veður um helgina. Við trúum því að þetta fari allt að koma. Loðnan fer örugglega brátt að þétta sig og verða veiðanleg. Þá væri, held ég, fyllsta ástæða til að færa trolllínuna vestar svo unnt sé að kanna þá loðnu sem við urðum varir við. Það er alltaf spennandi að eiga við loðnuna og hér um borð ríkir bjartsýni,“ segir Þorkell í frétt Síldarvinnslunnar.