mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bragðgóður en eitraður

6. desember 2018 kl. 19:00

Matís

Helsti vandinn við markaðssetningu á beitukóngi virðist vera að ærinn tilkostnaður gæti fylgt því að tryggja að engin eitrunaráhrif séu til staðar.

Hafkóngur er kuðungur, afar áþekkur beitukóngi en mun stærri. Talið er að töluvert sé um hafkóng hér við land og stofninn þoli töluverða veiða. Hann heldur sig yfirleitt á meira dýpi en beitukóngurinn og hefur þann galla helstan að í honum eru eiturkirtlar sem þarf að varast.

Jónas Rúnar Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís, hefur birt skýrslu um rannsóknir sínar á hafkóngi, sem gerðar voru í samvinnu við Sægarp ehf. á Grundarfirði og síðar Royal Iceland hf. Meðhöfundur skýrslunnar er Lúðvík Börkur Jónsson hjá Royal Iceland.

Tetramín heitir eitrið
Tetramín heitir eitrið sem hafkóngurinn framleiðir. Tilraunir sýndu að vel megi fjarlægja bæði eiturkirtlana og poka þann sem bæði framleiðir og geymir tetramínið.

„Hins vegar væri ekki hægt að vera 100% viss um að engin eitrunaráhrif væru til staðar, þó svo að kirtill og poki hefðu verið fjarlægð í vinnslunni,“ segir í skýrslunni. „Ekki þyrfti að gleymast nema einn kirtill og einhver sushi neytandi á hinum kröfuharða japanska markaði gæti orðið veikur.

Ærinn tilkostnaður gæti síðan fylgt því að mæla hvort tetramín finnist í afurðunum.

AVS rannsóknarsjóðurinn veitti Sægarpi ehf. styrk árið 2012 til að kanna möguleika á veiðum, vinnslu og útflutningi á hafkóngi. Sægarpur varð hins vegar gjaldþrota á verkefnistímanum og „segja má að verkefnið hafi dagað uppi í framhaldi af því.“

Árið 2014 keypti Royal Iceland hins vegar eignir þrotabús Sægarps og hélt áfram tilraunum með hafkóng, sem geymdur var heilfrystur og ósoðinn í þrotabúinu. Jafnframt hefur Royal Iceland haldið stundað bæði veiðar og vinnslu á beitukóngi.

Þótti frábær vara
„Royal Iceland gerði talsverðar tilraunir með þessa vöru,“ segir í skýrslunni um hafkónginn. „Meðal annars voru framleidd 50 kg af unnum vöðva til prufu, þar sem kirtillinn og pokinn voru handvirkt fjarlægðir. Nýting var talsvert hærri (24%) en nýting er almennt í vinnslu á beitukóngi (20%). Hver biti var að meðaltali um 16 gr sem er mjög stórt í samanburði við beitukóng og aðrar samkeppnisafurðir. Varan leit vel út,“ segir þar ennfremur.

„Hugmynd þeirra var að selja hafkónginn til áframhaldandi vinnslu í Kína þar sem vinnuafl er ódýrt. Ætíð fylgdu með allar upplýsingar sem til voru um möguleg tetramín áhrif,“ en þessar tilraunir báru ekki tilætlaðan árangur. Viðbrögð voru að vísu öll á þá leið að varan væri frábær vegna stærðar og bragðs, en ekki væri hægt að tryggja að eitrunaráhrif væru engin.

Niðurstöður verkefnisins urðu því þær að ýmislegt bendi til að það „geti leynst tækifæri í veiðum og vinnslu á hafkóngi, en að mun meiri rannsókna sé þörf áður en hægt er að fullyrða um hvort slíkar veiðar og vinnsla séu efnahagslega raunhæfar. Þar að auki eru mjög takmarkaðar upplýsingar til um magn og útbreiðslu hafkóngs í íslenskri lögsögu.“