mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Braskað með innflutningsleyfi

29. janúar 2014 kl. 15:38

Þurrkaðir þorskhausar frá Íslandi á markaði í Nígeríu. (Mynd: Sigurjón Arason).

Höftin í Nígeríu sögð hafa leitt til 50% verðhækkunar á fiski innanlands.

Hömlurnar á innflutningi á fiskafurðum til Nígeríu, sem tóku gildi um síðustu áramót og er ætlað að vernda innlenda framleiðslu, gætu leitt til alvarlegrar  þjóðfélagslegrar og efnahagslegrar kreppu í landinu, segir í grein í nígeríska blaðinu Daily Trust

Þar kemur fram að fiskverð í landinu hafi á nokkrum mánuðum hækkað um 50% vegna innflutningshaftanna.  

Innflutningsleyfum fyrir aðeins 180.000 tonnum af fiski hefur hingað til verið úthlutað i Nígeríu fyrir fyrri helming ársins en til samanburðar má nefna að á síðasta ári voru flutt þangað inn um 900.000 tonn af frystum fiski. 

Að sögn nígeríska blaðsins hafa fimm stærstu innflutningsfyrirtækin fengið tæpan helming leyfilegs magn en hinum helmingnum hefur m.a. verið ráðstafað til fyrirtækja sem áður voru með samtals 10% af innflutningnum, svo og til fjölda nýrra aðila sem ekki hafa yfir að ráða flutningstækjum, birgðageymslum eða fjármagni. Þessi nýliðar selji leyfin svo gjarnan til hinna sem hafa aðstöðu til að sinna þessum viðskiptum með þeim afleiðingum að fiskverðið til neytenda rýkur upp. 

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum Undercuurentnews.com

Því má bæta við að Nígería er Íslendingum mikilvægt markaðsland, einkum fyrir þurrkaðar afurðir og frystan makríl. Óvissa ríkir um það hvaða áhrif innflutningshöftin muni hafa á úflutninginn frá Íslandi.