þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bregðast þarf við fækkun landselsins

Guðsteinn Bjarnason
5. febrúar 2019 kl. 07:00

Landselir á skerjum. Þeim hefur fækkað um nærri 80 prósent síðan 1980 og eru taldir í bráðri útrýmingarhættu. MYND/ÞB

Umgengnisnefnd hefur skilað skýrslu til ráðuneytisins og segir stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða og vinna með grásleppukörlum. Nefndin leggur til sveigjanlegri veiðitíma og að leyft verði að gera hlé á veiðunum.

Auðvelda þarf skipstjórnarmönnum að skrá meðafla bæði sjávarspendýra og sjófugla við netaveiðar, fyrirkomulag grásleppuveiða þarf að verða sveigjanlegra, og stjórnvöld þurfa að leggja meiri vinnu í að fá upplýsingar frá Bandaríkjunum um þær kröfur sem þeir munu gera frá og með árinu 2022 samkvæmt lögum þeirra um verndun sjávarpsendýra.

Þetta eru tillögur Samstarfsnefndar um bætta umgengni um auðlindir sjávar, en hún fékk snemma á síðasta ári það verkefni að móta tillögur um viðbrögð vegna meðafla sjávarspendýra og sjófugla í netaveiðum. Nefndin hefur nú skilað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu um niðurstöður sínar.

Varðandi grásleppuveiðar leggur nefndin til að stjórnvöld hafi samráð við grásleppuveiðimenn á hverju veiðisvæði um það hvort, hvar og hvenær rétt væri að loka veiðisvæðum vegna landsels. Síðan verði fylgst náið með þróun meðafla landsels, en til lengri tíma litið telur nefndin líklegt að meginlausnin geti falist í meiri sveigjanleika við veiðarnar, þar á meðal að leyfa sjómönnum að gera hlé á veiðunum.

Nefndin telur einnig nauðsynlegt að útvega Fiskistofu fé til að uppfæra rafrænu afladagbókina sem sögð er henta illa til skráningar á meðafla sjávarspendýra og sjófugla, ekki síður en pappírsdagbækurnar sem einnig eru notaðar í einhverjum mæli. Léleg skráning meðafla við veiðar er að hluta ástæða þess að grásleppuveiðar hafa misst MSC-vottun.

Á síðasta ári setti Náttúrufræðistofnun Íslands landselinn á válista og er hann nú talinn í bráðri hættu. Náttúrufræðistofnun hefur greint frá því að á tímabilinu 1980 til 2016 hafi landsel fækkað um 77 prósent eða rúmlega fjögur prósent á ári.

„Gögn og greiningar benda til þess að þessi fækkun í landselastofninum stafi af fleiru en meðafla við fiskveiðar,“ segir í skýrslu umgengnisnefndar. „Hins vegar er ljóst, að meðafli við grásleppuveiðar í net er hluti vandans og því verður ekki undan því vikist að grípa til ráðstafana sem ætla má að geti leitt til minnkunar slíks meðafla.“