fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breiðir út þekkingu um sjávarútveg

Guðjón Guðmundsson
8. júní 2019 kl. 09:00

Þekkingarsetur Vestmannaeyja. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Sjávarútvegserindi Þekkingarseturs Vestmannaeyja hafa vakið athygli innan sjávarútvegsins þar sem tekið er á mörgum áhugaverðum málum sem brenna á greininni en líka mörgu öðru.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur frá því í febrúar 2018 staðið fyrir erindum um málefni sjávarútvegsins í hverjum mánuði að sumarmánuðunum undanskildum. Erindin eru nú orðin 13 talsins en það sem vekur ekki síst athygli er fjölbreytni þeirra því jafnt hefur verið fjallað um veiðar og vinnslu, markaðssetningu, fiskveiðistjórnunarkerfið, starfsemi einstakra fyrirtækja o.fl.

Getur stuðlað að nýsköpun

Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarsetursins, segir þennan hluta starfseminnar skila aukinni þekkingu inn í greinina, hún getur stuðlað að nýsköpun og síðast en ekki síst sé ákjósanlegur vettvangur til skoðanaskipta og samskipta aðila innan greinarinnar. Fyrsta erindið flutti Valur Bogason, forstöðumaður Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum 22. febrúar 2018 og bar það heitið Netarall og hafsvæðið í kringum Eyjar.

Þá hefur Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar fjallað um markaði VSV, markaðsstarf fyrirtækisins, stöðu og horfur á mörkuðum og nýja markaði, Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, fjallaði um rannsóknir á loðnu, Eyþór Björnsson fiskistofustjóri fjallaði um Fiskistofu í nútíð og framtíð, Róbert Guðfinnsson fjallaði um nýsköpun, markaðssetningu og framtíðina, Daði Már Kristófersson umhverfis- og auðlindahagfræðingur fjallaði um veiðigjöld og svo má áfram telja. Nú síðast, 27. maí, flutti Eyjamaðurinn Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri Marós í Þýskalandi, erindi um tækifæri fyrir fyrirtæki í Eyjum á erlendum mörkuðum, fullvinnslu, vörumerki og framtíð fiskvinnslu á Íslandi.

Samtal fremur en framsögur

Erindin er öll tekin upp í mynd og eru þau aðgengileg á  vef Þekkingarseturs Vestmannaeyja.  Ljósmyndir, glærur og stutt yfirlit er einnig aðgengilegt eftir hvert erindi. Slóðin er http://www.setur.is/gagnasofn/erindi/sjavarutvegserindi/.

Fyrirkomulagið á erindaflutningnum í Þekkingarsetrinu er einfalt og þægilegt fyrir flesta. Þau eru haldin í húsnæði nýlegu glæsilegu húsnæði Þekkingarsetursins á Ægisgötu alveg við höfnina og húsið opnar 11:45. Hrafn segir að strax þá streymi að áhugasamir og boðið er upp á súpu og brauð fyrir og á meðan erindið er flutt sem hefst kl. 12. Rúmlega 100 sjávarútvegstengdum aðilum er boðið á erindin og þekkjast að jafnaði um 30-40 manns boðið.  Mest hafa 60 hlýtt á erindi. Hrafn segir að áhersla sé lögð á að hafa erindin óformleg og miðað er við að hvert erindi taki í kringum 40 mínútur í flutningi. Það sé gert til þess að ganga ekki á hádegishlé þeirra sem eru við vinnu og gefa samt rými fyrir spurningar og svör meðan á fyrirlestrinum stendur. Með þessu fyrirkomulagi verður í rauninni fremur um samtal að ræða en einungis framsögur og það skili sér jafnt í líflegum og skapandi umræðum og sé til þess fallið að breiða út þekkingu til fagaðila innan sjávarútvegsins.

„Við byrjum alltaf stundvíslega kl. 12 og hættum stundvíslega kl. 13.  Ef áhugi er fyrir hendi þá geta áhugasamir aðilar rætt við flutningsmann erindisins að erindi loknu.  Oft á tíðum hafa fyrirtækin líka boðið viðkomandi í heimsókn og það hefur skapað góðar tengingar.“

Hlé er gert á erindunum yfir sumarið og í haust, en nú þegar er farið að setja niður erindi í haust.   Eyjamaðurinn Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, dótturfyrirtækis Samherja, fjallar þá um sölu og markaðssetningu á fiski út um víða veröld.