föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brenndu 54.000 tonnum af svartolíu við landið

svavar hávarðsson
13. febrúar 2019 kl. 12:00

Bruni svartolíu hefur verið í deiglunni, og ekki síst vegna komu skemmtiferðaskipa til landsins. Mynd/HAG

Fjórðungur skipa sem sigldu við Ísland árið 2016 brenndu skítugustu olíunni.

Um íslensku efnahagslögsöguna sigldu 856 skip árið 2016, mörg eðlilega einu sinni eða oftar. Flest þessara skipa voru fiskiskip eða 371. Alls 220 skip í þessum hópi, sem samsvarar 26% skipanna, notuðu svartolíu á vélar sínar en sú olía mengar mest af þeim sem brennd er um borð í skipum og stendur til að banna á stórum alþjóðlegum hafsvæðum.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokks, um brennslu svartolíu og afgas skipavéla.

Bruni þessarar tegundar olíu hefur verið töluvert til umfjöllunar síðustu misserin, ekki síst vegna notkunar hennar um borð í stórum skemmtiferðaskipum sem hingað koma, og notkunar hennar við að keyra ljósavélar skipanna í höfn.

Í svari ráðherra kemur líka fram að þetta sama ár – 2016 - nam heildarnotkun eldsneytis úr jarðolíu innan íslensku efnahagslögsögunnar alls 167.790 tonnum. Þar af voru 54.068 tonn svartolía (HFO), eða 32% af heildarmagninu.

Af þessum 856 skipum sem hér um ræðir voru 79 farþegaskip. Af þeim keyrðu 31 á 16.913 tonnum af svartolíu. Einnig brenndu tólf gámaskip sem sigldu við og til landsins um 14.624 tonn af sömu svartolíunni. Tvö fiskiskip brenndu 444 tonnum af svartolíu.

Umhverfishugsun í útgerð

Íslenskar útgerðir nota aðallega skipagasolíu (MGO) og skipadísilolíu (MDO) sem eldsneyti á aðalvélar skipa sinna. Þó brenna nokkur skip svartolíu (HFO) en svartolían getur verið allt að 30% ódýrari en skipagasolía og skipadísilolía. Þeim skipum fer heldur fækkandi sem nota svartolíu og er tiltekið í svarinu að ástæðan sé tvíþætt.

Annars vegar hefur dregið úr verðmun milli tegunda á skipaolíu undanfarið, en auk þess fer venjuleg dísilolía mun betur með aðalvélar skipa en svartolían og því kjósa útgerðir frekar að nota dísilolíu til að spara viðhald vélanna. Að síðustu er talið að aukin umhverfisvitund útgerðarfyrirtækja hafi mikið að segja þegar kemur að vali á eldsneyti.

Skítugasta olían

Mengun af völdum svartolíu er meiri en sú mengun sem myndast við brennslu annarra olíutegunda. Samkvæmt viðauka IV við alþjóðasamning um verndun hafsins, MARPOL (MARine POLution), er heimilt að tilgreina sérstök hafsvæði þar sem magn mengandi lofttegunda í afgasi skipa er takmarkað. Þessi hafsvæði eru kölluð ECA-svæði (Emission Control Area). Þau svæði sem tilgreind hafa verið eru Eystrasaltið og Norðursjórinn ásamt strandlengju Bandaríkjanna, segir í svarinu.

Ísland fullgilti viðauka VI við MARPOL árið 2017 og hann gildi hér á landi í febrúar 2018. Því er ekkert því til fyrirstöðu að ECA-svæði verði afmarkað við Ísland og hefur verið eftir því kallað. Á það bæði við um íslensk náttúruverndarsamtök, fyrirtæki og sveitarfélög.

Hvað brennisteinsefnin varðar þá hefur Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) sett reglur, byggðar á viðauka VI í MARPOL, um leyfilegt magn þeirra í því eldsneyti sem skipavélar brenna. Þar er leyfilegt hámark brennisteins í eldsneyti 0,1% frá byrjun árs 2015. Fyrir önnur svæði er hámarkið 3,5% til ársins 2020 og eftir það 0,5% hámark fyrir innihald brennisteins í eldsneyti (IMO 2020).