mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breskir makrílbátar raka saman peningum í Noregi

18. janúar 2009 kl. 09:00

Skoska uppsjávarskipið Altaire hefur landað makríl í Noregi fyrir um 40 milljónir norskra króna, eða um 736 milljónir íslenskar, á rétt rúmum hálfum mánuði nú í janúar, að því er fram kemur á vef norska blaðsins Fiskeribladet/Fiskaren.

Skipið landaði 1.950 tonnum af makríl í Noregi fyrstu dagana í janúar. Það var síðan á leið til löndunar í Noregi í annað sinn í lok vikunnar með um 2.000 tonn af makríl.

Breskir makrílbátar sigla nú í löngum röðum frá miðunum rétt norður af Skotlandi til löndunar í Noregi og raka saman peningum á því að leggja upp afla sínum þar. Það sem af er janúar hafa bresk skip landað 21.200 tonnum af makríl í Noregi að verðmæti 200 milljónir norskra króna, eða 3,7 milljarðar íslenskar. Meðalverðið á kíló á makrílnum er um 10 krónur norskar, eða 184 krónur íslenskar.