sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breyttar reglur um byggðakvóta

28. apríl 2020 kl. 09:54

Grásleppunni landað. MYND/Þorgeir Baldursson

Vegna Covid-19 verða leyfðar undanþágur frá skilyrðum, meðal annars um löndun í heimabyggð ef vinnsla liggur niðri

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020 til að bregðast við áhrifum COVID-19 veirunnar.

Bráðabirgðaákvæðum verður bætt við sem gera sveitafélögum kleift að sækja um tímabundna undanþágu frá ákveðnum skilyrðum reglugerðarinnar. 

Þau skilyrði lúta að því að landa eigi afla innan hlutaðeigandi byggðarlags en ef vinnsla liggur niðri vegna COVID-19 að hluta eða öllu leyti verður nú hægt að sækja um undanþágu.

Einnig er í reglugerðinni ákvæði um að Fiskistofu sé heimilt að taka til greina umsóknir um byggðakvóta sem bárust eftir umsóknarfrest í sveitarfélögum þar sem byggðakvóta hefur ekki þegar verið úthlutað.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ábendingar hafi borist um að bregðast þyrfti við þeim skilyrðum sem gilda vegna úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa þar sem markaðsaðstæður hafa breyst umtalsvert á síðustu vikum og dögum.

Þetta snú einkum að grásleppu þar sem markaðir hafa lokast og vinnslur eru ekki tilbúnar að taka við hráefni til vinnslu þrátt fyrir að vinnslusamningar séu í gildi milli aðila.