laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar á lögum um fiskeldi

23. maí 2014 kl. 13:56

Laxeldi í Tálknafirði.

Fiskeldi gæti skilað 40-50 milljörðum á ári gangi áform eftir.

Breytingin var gerð á lögum um fiskeldi sem voru samþykkt á alþingi nú fyrir viku. Tilgangurinn er að einfalda umsóknarferli vegna starfs- og rekstrarleyfa fiskeldisfyrirtækja. Auknar kröfur eru nú gerðar til rannsókna á umhverfi fiskeldis. Fyrirtækin í sjókvíaeldi munu greiða árgjald í umhverfissjóðs sjókvíaeldis sem kostar rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Þetta er í ágætu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem  segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun á regluverki atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi, og að ríkisstjórnin er því fylgjandi að náttúruvernd og náttúrunýting fari saman.

Samstaða var á Alþingi um það að miða skuli við ströngustu umhverfiskröfur í fyrirsjáanlegri uppbyggingu í fiskeldi. Rannsóknir á burðarþoli fjarða eru nú afar brýnt verkefni vegna vaxtar í fiskeldi og hefur skortur á rannsóknum haft hamlandi áhrif á greinina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerir ráðstafanir til að slíkar rannsóknir geti hafist í sumar með því tryggja nægjanlega fjármögnun á móti 7,8 m.kr. styrk frá AVS rannsóknasjóði, jafnmiklu framlagi frá Þróunarsjóði LF og framlagi Hafró þar til umhverfissjóður sjókvíaeldis er orðinn nægilega burðugur.  Í lögunum er einnig bráðabirgðaákvæði um að endurskoða skuli lögin inn 18 mánaða frá gildistöku þeirra.

Í frétt frá Landssambandi fiskeldisstöðva er minnt á að mikil tækifæri séu til staðar í fiskeldi og nú þegar hafi verið heimilað að framleiða 42 þúsund tonn. Þar af eru rekstrarleyfi fyrir 12 þúsund tonna á ári af laxi í sjó á Vestfjörðum og 10 þúsund tonna framleiðslu á ári á Austfjörðum. Gangi áform eftir gæti eldi á fiski orðið 40 til 50 þúsund tonn á ári á næstu 10 til 15 árum. Verðmætið gæti numið 30 til 40 milljörðum króna á ári.

Alls eru um 250 til 260  bein störf í fiskeldi í dag og mun þeim fjölga verulega á næstu árum. Fiskeldi hefur haft umtalsverð áhrif á suðurfjörðum Vestfjarða og hefur mikil uppbygging átt sér þar stað.