föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar til bóta á strandveiðifrumvarpi

19. júní 2009 kl. 12:00

,,Þær breytingar sem Alþingi gerði á strandveiðifrumvarpinu voru til bóta að mínum dómi en þó er langt frá því að við séum sáttir við öll ákvæði laganna,” segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í samtali við Fiskifréttir. ,,Einkum erum við andsnúnir tveimur atriðum, annars vegar því að veiðileyfi í kerfinu útiloki báta frá öðrum atvinnuveiðum út fiskveiðiárið og hins vegar að hluti byggðakvótans skuli vera færður yfir í þetta nýja kerfi.”

Strandveiðifrumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi í gær. Breytingarnar sem urðu í meðförum þingsins voru í fyrsta lagi þær, að í stað þess að hámarksafli í hverri veiðiferð megi vera 800 kg af þorski og leyfilegur meðafli ufsa megi vera 30% (fyrst var miðað við 15%), þá er nú miðað við 800 kg hámarksafla allra tegunda. Þessi breyting girðir fyrir að menn lendi í vandræðum ef þeir fá mikinn ufsa, að sögn Arnar. 

Í öðru lagi var ákveðið að leyfa að hámarki 4 handfærarúllur á hvern bát óháð því  hve margir væru um borð. Áður var gengið út frá því að einn maður á báti mætti aðeins vera með 2 rúllur og ef fleiri væru um borð mætti að hámarki vera með 4 rúllur. Að sögn Arnar er litið svo á að þegar búið sé að setja hámarksafla skipti minna máli hve margar rúllur séu um borð auk þess sem erfitt gæti reynst að hafa eftirlit með því.

Í þriðja lagi var hámarkstími veiðiferðar lengdur úr 12 tímum í 14 tíma.

Í fjórða lagi var ákveðið að ekki mætti veiða á föstudögum og laugardögum en áður var miðað við laugardaga og sunnudaga. Að sögn Arnar skýrist þetta af því að yfirleitt er búið að loka fiskvinnslunum á hádegi á föstudögum fyrir helgina og því erfitt að losna við aflann eftir það. Betra er því að fara á sjó á sunnudögum út frá þessu sjónarmiði. 

Nánar má sjá skilmála strandveiðanna á vef LS, HÉR