laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breyttir markaðir til frambúðar

Guðjón Guðmundsson
24. janúar 2021 kl. 09:00

Skip úr Kyrrahafsflota Norebo við bryggju í Petropavlovsk. Bláu skipin eru línuskip sem veiða kyrrahafsþorsk. Þeim verður skipt út á næstu þremur árum fyrir nýju línuskipin. Aðsend mynd

Undanfarna mánuði hafa sóttvarnayfirvöld í Kína hægt verulega á löndun þessara afurða af ótta við kórónuveiruna. Þetta hefur víðtæk áhrif á markaði, segir Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu.

Kínverskar fiskvinnslur hafa reitt sig á hráefni frá Evrópuþjóðum, einkum Rússlandi og Noregi, til að halda uppi vinnslu á tvífrystum hvítfiskafurðum fyrir Bandaríkja- og Evrópumarkað. Undanfarna mánuði hafa sóttvarnayfirvöld í Kína hægt verulega á löndun þessara afurða af ótta við kórónuveiruna.  Hver farmur sem kemur inn til Kína er skoðaður gaumgæfilega og athugað er hvort veiruleifar finnist á umbúðum.

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, segir að þetta hafi skapað aukna eftirspurn eftir einfrystum afurðum í Bandaríkjunum og Evrópu sem er umtalsvert dýrari vara.

Innflutningur á frosnum hvítfiski hefur að mestu leyti farið í gegnum tvær hafnir í Kína, þ.e.a.s. Dalian og Qingdao. Sturlaugur segir að algjörlega hafi verið lokað fyrir landanir úr svokölluðum trömpurum, sem koma með frosinn fisk í lausum kössum til Dalian. Nú eru um fjórtán tramparar sem liggja fyrir utan höfnina og bíða eftir afgreiðslu og hafa gert frá því í byrjun desember. Þetta er frosinn fiskur sem er þýddur upp, unninn og frystur á ný og seldur á Bandaríkja- og Evrópumarkað. Einnig hefur verið lokað fyrir landanir á gámafisk í Dalian. Í Qingdao er líka lokað fyrir trampara en opið fyrir gámainnflutning.

Fjögur ný línuskip

Norebo gerir út níu togara á alaskaufsa sem hefur verið fyrirtækinu mikilvæg tegund. Fyrirtækið er nú að endurnýja skipaflota sinn með tíu nýsmíðum sem byggðar eru á teikningum Nautic Russia, dótturfyrirtæki Nautic á Íslandi. Fyrsta skipið kemur á þessu ári og verður á þorskveiðum í Barentshafi en skip númer tvö kemur á næsta ári og verður gert út á alaskaufsa í Kyrrahafi. Fjögur skipanna verða gerð út á alaskaufsa og sex á þorsk.  Þessa dagana er síðan verið að ganga frá samningum um smíði á fjórum nýjum línuskipum fyrir Norebo sem gerir út alls 45 fiskiskip.  Heildarafli skipa Norebo árið 2020 var um 710 þúsund tonn.

„Á síðasta ári fóru tæp 600 þúsund tonn af hausuðum og slægðum alaskaufsa frá Rússlandi til Kína. Þessar innflutningshömlur sem við erum að sjá núna ásamt öðrum sóttvarnaráðstöfunum hafa leitt til þess að mörgum verksmiðjunum hefur verið lokað bæði í Dalian og Qingdao, fyrr en vant er í kringum kínverska nýárið.  Þær munu einnig opna aftur seinna en vant er. Þetta ásamt innflutningshömlum leiðir til þess að mun minna magn mun berast af flökum frá Kína inn í Evrópu og Bandaríkin næstu mánuði heldur en við eigum að venjast. Við erum farnir að sjá að verð á alaskaufsablokk er að hækka því ljóst er að minna verður unnið af tvífrystri alaskaufsablokk á næstunni.  Núna er því meiri eftirspurn eftir einfrystu blokkinni á Bandaríkjamarkaði og Evrópu.  Þetta hefur skilað okkur hærra verði í blokkinni og útlit er fyrir að verð muni stíga enn frekar.   Við erum hins vegar á sama tíma að eiga við talsverðar áskoranir í heilfrystingunni“ segir Sturlaugur.

Aukin eftirspurn á næstu mánuðum

Hann segir að fróðlegt verði að fylgjast með því hvaða áhrif ástandið í Kína hafi á þorskmarkaðinn bæði til lengri og skemmri tíma. Útflutningur á tvífrystum þorskhnökkum og þorskflökum frá Kína muni dragast saman sem geti haft áhrif til verðhækkana á þorski í Bandaríkjunum og Evrópu til skamms tíma.  Á móti muni hins vegar almenn áhrif af kórónuveirufaraldrinum í Evrópu vega að einhverju leyti upp á móti þessum vandræðum í Kína.  Rússar og Norðmenn hafa verið stórir í útflutningi á þorski til Kína.  Þessar þjóðir eru nú í auknum mæli að leita að vinnslumöguleikum í Evrópu.

„Það hefur í sjálfu sér verið hægfara þróun í þessa átt á undanförnum árum en við munum sennilega sjá að þessari þróun verði verulega hraðað á næstu misserum í ljósi núverandi aðstæðna.  Vægi Kína í þessum viðskiptum mun því minnka þegar litið er til framtíðar.  Fjárfestingar Rússa í nýjum skipum og verksmiðjum á næstu tveimur til þremur árum mun einnig setja strik í reikninginn hvað þetta varðar. Þær vinnslur á Íslandi sem eru í lausfrystingu á hnökkum og flökum munu hugsanlega njóta góðs af ástandinu á næstu mánuðum í aukinni eftirspurn í kjölfar innflutningstregðunnar í Kína.

Á ljósátuveiðar við Suðurskautslandið

Norebo gerði út skip um tíma á veiðar á ljósátu við Suðurskautslandið fyrir tólf árum en fyrirtækið taldi sig hvorki hafa hentug skip eða búnað til þessara veiða.  Afkoman af þessum veiðum var af þessum sökum ekki góð.  Norebo er um þessar mundir að velta fyrir sér möguleikanum á að hefja veiðar á ný og kanna með smíði á nýju skipi eða skipum sem verði sérhönnuð fyrir þessar veiðar. Líklegt er að rússnesk stjórnvöld styðji verkefnið með einhverjum hætti. Um verður að ræða gríðarlega öflug skip ef af þessu verður. Þetta verða um 120 metra löng skip sem draga þrjú troll. Það er verið að fara yfir hagrænan fýsileika þessa máls. Ljósátan fer að mestu í mjöl- og lýsisvinnslu um borð í skipunum en hugsanlega verða aðrir vinnslumöguleikar einnig skoðaðir.

Polar Sea+, dótturfyrirtæki Norebo, er um þessar mundir að opna saltfiskvinnslu sína í Murmansk sem verður sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Atlantshafi með framleiðslugetu allt að 50 tonnum á dag. Verksmiðjan er smíðuð og uppsett af Skaganum 3X.  Skaginn sá einnig um uppsetningu á flakafrystihúsi fyrirtækisins sem hóf starfsemi fyrir 5 árum síðan.

Sturlaugur segir að staða fiskistofna sem Norebo sækir í sé almennt sterk um þessar mundir. Stofn alaskaufsa er í vexti og var kvótinn aukinn í upphafi árs.  Gert er ráð fyrir að Rússar veiði tæplega 2 milljónir tonna af Alaskaufsa á þessu ári.   Þorskkvóti í Barentshafi var aukinn um 20% í upphafi þessa árs og um 8% í ýsu. Í Barentshafi er þorskvótinn nú um 885 þúsund tonn.  Norebo fær ráðstafað tæplega 100 þúsund tonnum af þessum kvóta.