miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bullandi tap á þorskeldi í Noregi

12. febrúar 2010 kl. 12:00

Frá árinu 2002 hafa Norðmenn selt eldisþorsk fyrir 1,2 milljarða norskra króna, jafnvirði 26 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Dúndrandi tap hefur verið á þorskeldinu því á þessu tímabili hefur verið varið samtals 4,5 milljörðum norskra króna, jafnvirði 100 milljarða íslenskra, til fjárfestingar og rannsókna í greininni.

Þetta kom fram á ráðstefnu um þorskeldi sem haldinn var í Bodö í Noregi í þessari viku. Enda þótt mikill árangur hafi náðst á undanförnum árum í því að ná tökum á þorskeldinu og draga úr framleiðslukostnaði munu líða að minnsta kosti tíu ár þangað til eldið fer að komast á beinu brautina, að mati málsmetandi manna á ráðstefnunni.

Um þessar mundir stunda 25 fyrirtæki í Noregi þorskeldi en 95% af fiskinum er í kvíum hjá 5-8 fyrirtækjum. Eins og að líkum lætur gengur fyrirtækjunum misvel að láta enda ná saman í eldinu en blaðið Nordland upplýsti nýlega að stærsta eldisfyrirtækið, Codfarm, tapaði 15 norskum krónum (jafnvirði 330 íslenskra króna) á hverju seldu kílói.

Á síðasta ári nam sala á eldisþorski frá norskum fyrirtækjum 21.000 tonnum miðað við heilan fisk. Í ár er gert ráð fyrir að salan muni falla niður í 8.000 tonn, að því er IntraFish-vefurinn skýrir frá.