mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Búnaður sem hindrar skip í að stranda

Guðsteinn Bjarnason
7. ágúst 2018 kl. 08:28

Strandvari um borð í Fríðu Dagmar ÍS. MYND/AÐSEND

Brátt gæti það heyrt sögunni til að skipum og bátum sé siglt í strand. Strandvari er nýr búnaður sem á að koma í veg fyrir slík óhöpp

Tæknin æðir áfram og nýtist til margra hluta, þar á meðal við að tryggja öryggi sjófarenda. Innan tíðar má búast við því að um borð í flestum skipum verði búnaður sem nefnist Strandvari og gætir þess að skipið sigli ekki í strand.

„Strandvari hefur verið í prófun um borð í nokkrum bátum núna í eitt ár,“ segir Hörður Þór Benediktsson sem hefur unnið að þróun Strandvara. Hann segir tækið hafa reynst vel að mestu. „Það hafa komið upp smá hnökrar eins og við er að búast en við höfum lagað þá jafnóðum. En á þessu tímabili hefur verið hannað nýtt tæki, sem er með ýmsa kosti umfram gamla tækið.“

Hann vonast til þess að nýja tækið verði klárt í haust og þá verði hægt að bjóða sjómönnum það.

„Tækið er með GPS-punkta af strandlengju Íslands, eyjum og skerjum. Það á líka að vera með upplýsingar um sjávardýpið allt í kringum landið. En þar sem það hefur reynst erfitt að afla þessara gagna, þá er aðeins þriðjungur af sjávargrunninum kominn í tækið.“

Þegar allt er tilbúið á tækið að vara við grynningum löngu áður en dýptarmælir skipsins greinir þær. Þá þekkir tækið allar hafnir landsins og innsiglingar í hafnir og gefur því ekki viðvörun þegar lagt er að hafnarbakka. Tækið gefur heldur ekki viðvörun ef réttri siglingaleið er fylgt þó að siglt sé nærri hafnarmannvirkjum.

Búnaðurinn er með innbyggt GPS-tæki og auk þess tengdur GPS- og AIS-tækjum skipsins, sem jafnframt gefur kost á því að tækið vari við árekstri við önnur skip. Tækið getur líka tengst dýptarmæli og áttavita.

Hörður segir hugmyndina hafa kviknað þegar báturinn Jónína Brynja strandaði við Straumnes í nóvember 2012. Hann hafi heyrt í útvarpinu þá að á fyrsta áratug þessara aldar hefðu 27 bátar og skip strandað hér við land vegna þess að menn sofnuðu við stýrið.

„Þó að menn séu með fullkomin siglingatæki í brúnni, þá eru þau ekki alltaf stillt til að gefa viðvörun,“ segir Hörður. „Mér fannst vanta tæki sem væri alltaf á verði, án þess að það þyrfti að stilla það á nokkurn hátt og væri þeim eiginleikum búið að gefa ekki falskar viðvaranir.“

Strandvari fékk 1,5 milljón króna styrk frá Siglingastofnun árið 2013, 14 milljón króna frumherjastyrk frá Tækniþróunarsjóði árið 2016 og loks aftur 1,5 milljónir frá Samgöngustofu árið 2017, en þá hafði Samgöngustofa tekið við af Siglingastofnun.

Samgöngustofa hefur á undanförnum árum styrkt fleiri verkefni er tengjast nýjungum í öryggismálum sjófarenda. Sagt verður nánar frá nokkrum þeirra í Fiskifréttum innan tíðar.