sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byggðaráð Skagafjarðar styður dragnótaveiðibann

25. maí 2010 kl. 09:29

Byggðaráð Skagafjarðar styður hugmyndir Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um bann við dragnótaveiðum í Skagafirði. Sjómenn og útgerðarmenn dragnótaveiðibáta á Snæfellsnesi skora hins vegar á ráðherra að draga tillögur sínar til baka.

Í umsögn byggðaráðs Skagafjarðar um tillögur sjávarútvegsráðherra kemur fram að byggðaráð styðji hugmyndir ráðherra um bann við dragnótaveiðum, sem markist af línu sem dregin er yfir fjörðinn úr Ásnefi að vestan, utan við Drangey í norðurenda Þórðarhöfða.

Sjávarútvegsráðherra hefur sem kunnugt er sett fram tillögur um að banna dragnótaveiðar í sjö fjörðum - Öndunarfirði, Miðfirði, Hrútafirði, Húnafirði, Skagafirði, Seyðisfirði og Loðmundarfirði.

Grímseyingar mjög mótfallnir þessum hugmyndum, enda eru þrír bátar í eynni gerðir út á dragnótaveiðar og því miklir hagsmunir þar í húfi.

Skipstjórar, sjómenn og útgerðarmenn dragnótabáta á Snæfellsnesi hafa sömuleiðis mótmælt kröftuglega þessum hugmyndum um dragnótaveiðibann í áðurnefndum fjörðum og skora á ráðherrann að draga tillögur sínar til baka.

Skýrt er frá þessu á vef ríkisútvarpsins, ruv.is