þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byggðakvótinn hefur mest áhrif á byggðafestu

24. febrúar 2016 kl. 16:00

Strandveiðar

RHA kannar áhrif pottanna á byggð í landinu

Almenni byggðakvótinn skilar mestum byggðafestuáhrifum af þeim pottum sjávarútvegsins sem lengst hafa verið í gangi en línuívilnun og strandveiðar komu þar á eftir í öðru og þriðja sæti. Skelbætur voru sístar.

Þetta eru meginniðurstöður í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um mat á svokölluðum byggðafestuáhrifum vegna atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana í fiskveiðistjórnarkerfinu. Sjávarútvegsráðherra fól RHA að leggja sérstakt mat á þessa þætti. Þær aðgerðir sem hér um ræðir eru línuívilnun, almenni byggðakvótinn, byggðakvóti Byggðastofnunar, rækju- og skelbætur og strandveiðar, það er hinna ýmsu potta sem aflaheimildir eru veittar úr. Gagnasafn yfir allar hafnir á landinu á tímabilinu 2004-2014 var lagt til grundvallar niðurstöðunum.

Byggðafestuáhrif pottanna reyndust ólík eftir landsvæðum:

• Á einangruðustu og viðkvæmustu sjávarbyggðirnar hafði línuívilnun mestu byggðafestuáhrifin.

• Á Norðurlandi og Austurlandi höfðu skelbætur mestu byggðafestuáhrifin.

• Á Snæfellsnesi, Vestfjörðum að hluta og stór-höfuðborgarsvæðinu3 hafði almenni byggðakvótinn mestu byggðafestuáhrifin.

Byggðafestuáhrif séð út frá kerfunum (pottunum):

• Strandveiðarnar og almenni byggðakvótinn höfðu mestu byggðafestuáhrif á stórhöfuðborgarsvæðinu.

• Línuívilnun hafði mestu byggðafestuáhrifin á einangruðustu og viðkvæmustu sjávarbyggðirnar.

Aðrar niðurstöður:

• Höfuðborgarsvæðið er langstærsta verstöð landsins þegar horft er til hefðbundinnar svæðisskiptingar Hagstofu Íslands. Um helmingur allrar vinnslu og veiða fara fram á stórhöfuðborgarsvæðinu og sú hlutdeild fer stækkandi. 

• Bolungarvík bar höfuð og herðar yfir þá staði sem nýttu sér línuívilnun með 9.507 tonn á tímabilinu 2003-2014 en Ólafsvík kom þar á eftir með 3.803 tonn. Rif, Siglufjörður og Suðureyri fylgdu svo í kjölfarið með mjög svipaða tonnatölu og Ólafsvík.