þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byggingarnefnd nýs hafrannsóknaskips sett á fót

12. apríl 2019 kl. 15:45

Kristján Þór Júlíusson

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hélt ræðu á aðalfundi SFS í dag. Þar kom fram að grisjun reglugerða innan sjávarútvegsins fækkar reglugerðum um 50 - en það er hugsað til að einfalda regluverk og gera það skilvirkara.

, hélt í dag ræðu á aðalfundi Samataka fyrirtækja í sjávarútvegi sem þetta árið var helgaður umhverfismálum – ekki síst málefnum hafsins.

Í ræðu sinni sagði ráðherra meðal annars að mikill árangur hafi náðst innan sjávarútvegsins er varðar umhverfismál. Til að fylgja eftir þessum árangri sé í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum að finna aðgerðir sem snúa sérstaklega að sjávarútvegi. Þær aðgerðir snúa meðal annars að því að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipum, rafvæða hafnir og fiskimjölsverksmiðjur.

Ráðherra vék að smíði nýs hafrannsóknaskips:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um eflingu hafrannsókna og hafa þegar verið stigin markverð skref í þá veru. Þetta birtist meðal annars í auknum fjármunum til hafrannsókna í fjárlögum síðasta árs en þeir fjármunir nýttust m.a. til að efla loðnurannsóknir. Þá var það sérstaklega ánægjulegt þegar Alþingi samþykkti á 100 ára afmæli fullveldis okkar að hafin yrði smíði nýs hafrannsóknaskips. Á þessu ári verða settar 300 milljónir í smíði skipsins og alls 3,5 milljarðar til að ljúka smíði þess á næstu árum,“ sagði Kristján en nýtti tækifærið til að greina frá því að hann hefur skipað byggingarnefnd vegna þessarar smíði. Nefndina skipa Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, endurskoðandi, og Friðrik Jón Arngrímsson, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri LÍÚ, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Endurskoðar stimpilgjald

Kristján sagði það á margan hátt skjóta skökku við að á sama tíma og stjórnvöld hvetja til þess að íslenskur sjávarútvegur ráðist í fjárfestingar á umhverfisvænni skipum sé lagt sérstakt gjald á þessar sömu fjárfestingar sem ekki þekkist í rekstrarumhverfi erlendra samkeppnisaðila.

„Hér er ég að vísa til þess stimpilgjalds sem greiða ber við eignatilfærslur fyrir skip yfir 5 brúttótonnum. Þessa gjaldtöku þarf að endurskoða enda myndi það fela í sér hvata fyrir íslenskan sjávarútveg til að hraða enn frekar endurnýjun fiskiskipaflotans og þannig stuðla að loftslagsvænni sjávarútvegi. Það er öllum til hagsbóta,“ sagði Kristján.

Breytingar hjá Matís

Nú stendur yfir vinna við breytingar á stefnu og starfsemi Matís ohf. Markmið þeirrar vinnu sagði Kristján að væri að skerpa á áherslum og hlutverki félagsins - sem á fyrst og síðast að vera að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs. Veigamikill hluti af því sé að styrkja tengsl Matís við atvinnulífið og eru uppi áform um að efla starfsemi félagsins á landsbyggðinni þar sem stærsti hluti matvælaframleiðslunnar fer fram.

„Þetta er spennandi verkefni sem ráðgert er að ljúka á þessu ári. Annað verkefni sem ég bind miklar vonir við fer af stað á næstu vikum og verður unnið af Sjávarklasanum. Markmið þess er að skyggnast inn í framtíðina – skoða þau tækifæri og áskoranir sem blasa við okkur. Fara yfir þörf á aukinni matvælavinnslu á heimsvísu, hvernig við getum mætt henni og aukið verðmæti sjávarfangs. Hugmyndin er sú að nýta niðurstöðu þessa verkefnis til að undirbyggja langtíma stefnumótun í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar,“ sagði Kristján.

Fækkar reglugerðum um 50

„Eitt af stærstu verkefnum stjórnvalda [...] er stuðla að einföldu og skilvirku regluverki. Nú stendur yfir margvísleg vinna sem miðar einmitt að þessu. Má þar nefna heildarendurskoðun á öllum eftirlitsreglum sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en þetta verkefni er í fullum gangi að frumkvæði okkar ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Þá má nefna tillögur starfshóps um heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum en stærstu hluti tillagna hópsins snýst um að einfalda og skýra regluverk. Einn angi þessarar vinnu er að grisja reglugerðarskóginn og má nefna að núna er í samráðsgátt stjórnvalda að finna drög að reglugerðum sem fækka reglugerðum um alls 50,“ sagði Kristján jafnframt í ræðu sinni.

Hér má nálgast ræðu hans í heild sinni.