laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byggir tvöfalt stærri úthafseldisstöð

18. mars 2020 kl. 07:00

Ocean Farm 1. Mynd/SalMar

Fiskeldisfyrirtækið SalMar í Noregi, sem nú þegar er með í rekstri úthafslaxeldisstöð, hyggst í sumar láta smíða fyrir sig aðra, stærri og enn afkastameiri úthafseldisstöð.

Fiskeldisfyrirtækið SalMar í Noregi, sem nú þegar er með í rekstri úthafslaxeldisstöð, hyggst í sumar láta smíða fyrir sig aðra, stærri og enn afkastameiri úthafseldisstöð. Þetta er haft eftir Atle Eide, stjórnarformanni SalMar. Talið er að stöðin muni kosta um 1,5 milljarð NOK, um 20 milljarða ÍSK.

Úthafseldisstöðin, sem kallast The Smart Fishfarm, er af svipaðri stærðargráðu og olíuborpallur og verður hún næstum tvisvar sinnum stærri en Icean Farm 1, úthafseldisstöð SalMar sem starfrækt er úti fyrir ströndum Þrændalaga.

Þolir 31 metra ölduhæð

„Ocean Farm 1 þolir allt að 11 metra ölduhæð en Smart Fishfarm verður sett niður í 30-40 km fjarlægð frá landi og þoli allt að 31 metra ölduhæð,“ sagði Eide í erindi á sjávarútvegssýningunni í Björgvin.

Smart Fishfarm verður 70 metrar á hæð og í stöðinni geta verið 3-4 milljónir laxa. Ráðgert er að framleiðslugetan verði 17-20 þúsund tonn af laxi í stöðinni árlega.

Miðjan á Smart Fishfarm verður 40 metrar í þvermál. Þar  verður sérstök aðstaða til að bregðast við útbreiðslu lúsar og sjúkdóma. Búast má við illviðrum þar sem stöðin verður sett niður, ekki síst yfir vetrartímann. Þess verða sérstakar aðferðir þróaðar fyrir þetta eldi. Sömuleiðis verða þróaðar nýjar gerðir tankbáta og fóðurbáta fyrir þessar sérstöku aðstæður.

Átta kvíar verða í stöðinni en í Ocean Farm 1 eru þær fimm. Ráðgert er að fyrsta slátrun fari fram vorið 2024.

Eide telur að á næstu þremur áratugum muni fjárfesting í úthafslaxeldi nema um 200 milljörðum NOK, 2.670 milljörðum ÍSK. Markmiðið sé að heildarframleiðsla í norsku laxeldi verði kominn upp í fimm milljónir tonna árið 2050. Á síðustu árum hefur hægst á framleiðsluaukningu í norsku laxeldi vegna slysasleppinga og laxalúsar sem leiddi til þess að það dró úr útgáfu nýrra framleiðsluleyfa.

Eide benti á að einungis 0,03% af standlengju Noregs sé nýtt undir fiskeldi og að fara úr 1.350.000 framleiðslu, eins og hún er núna, upp í 5 milljónir tonna, kalli einungis á 0,1% nýtingu allrar strandlengjunnar.

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 12. mars sl.